Væntumþykja og kærleikur - að þiggja og gefa sjálfum sér

 

Í dag er 26. janúar. Tíminn svoleiðis flýgur áfram. Í morgun þegar ég leit á dagatalið og sá hvað langt var liðið á janúar fékk ég snöggan hnút í magann. Fyrsta hugsun mín var: „Er lífið að fljúga frá mér? Er ég að ná að gera úr lífinu mínu það sem ég vil? Er ég að gera það besta fyrir mig? Gæti ég haft lífið mitt öðruvísi, jafnvel betra? Er ég að gefa af mér alla þá væntumþykju og allan þann kærleika sem býr innra með mér? Er ég að þiggja alla þá væntumþykju og kærleika sem mér er sýnd, eða kasta ég því frá mér? Sýni ég sjálfri mér nógu mikla væntumþykju, umhyggju og kærleika?".

Oft hef ég velt fyrir mér og vandræðast með sjálfsmynd, sjálfstraust og sjálfsöryggi. Jákvæðni  og rökhugsanir í því samhengi er stundum vanmetið. Það er ekki sjálfgefið að öllum líði vel og þurfi ekki að hafa fyrir neinu. Að lifa er list, að vera stoltur og standa með bakið beint, öruggur og ánægður með sjálfan sig án hroka er líka list. En Guðdómlega dásamlegt, bæði fyrir mann sjálfan og fyrir þá sem umgangast mann!

Þegar sjálfsmynd okkar er ekki góð erum við gjarnan í þeim pakka að gagnrýna okkur sjálfar fyrir nánast hvað eina sem við gerum. Það er alveg sama hvað það er, alltaf skulum við geta fundið okkur einhverja leið til að gagnrýna okkur og gjörðir okkar í stað þess að hrósa og þykja vænt um okkur.

Það er svo merkilegt að ein jákvæð hugsun getur hrakið margar neikvæðar hugsanir á brott. Ein jákvæð hugsun getur lyft vonum okkar aðeins upp. Oft teljum við okkur trú um að atvik og aðstæður í kringum okkur hafi áhrif á og stjórni því hvernig okkur líður. Við getum hins vegar haft áhrif á líðan okkar með því að breyta hugsun okkar, hegðun eða líkamlegu ástandi. Hugleiðið það aðeins.

Oft festumst við í vítahring okkar eigin hugsana. Við kannski liggjum í rúminu andvaka og þá oft leita á okkur ósjálfráðar hugsanir. Neikvæðar ósjálfráðar hugsanir sem skila þeim eina tilgangi að rífa okkur meira niður. Hugsanir eins og „Ég er algjör aumingi að hafa ekki getað gert betur í dag. Ég sem ætlaði að gera þetta og þetta og þetta". Út frá þessum neikvæðu hugsunum kemur ákveðin líðan. Við verðum daprar, ef til vill kvíðnar, reiðar við sjálfar okkur, finnum fyrir tilfinningalegum dofa og verðum jafnvel hræddar. Af líðaninni sprettur svo hegðun. Það getur ef til vill verið þess eðlis að við liggjum áfram í rúminu því andlega líðanin er ömurleg. Þegar okkur líður illa andlega þá kallar sú vanlíðan oft á líkamleg viðbrögð. Í svona tilfellum gætum við farið að finna fyrir höfuðverk, magaverk, yfirþyrmandi þreytu, spennu, vöðvabólgu og fleiru. Í kjölfarið upplifum við tilveru okkar ömurlega, vonlausa og jafnvel tilgangslausa.

En hvað getum við gert í staðinn? Fyrst þurfum við að átta okkur á því að allri líðan fylgir einhver hugsun - ekki öfugt. Öll bregðumst við mismunandi við aðstæðum og atvikum og túlkun fólks á þeim er ekki eins. Við þurfum að hlúa að okkur sjálfum og skoða hvernig við bregðumst við aðstæðum og atvikum.

Hvernig tökum við á móti gagnrýni? Er sama hver gagnrýnir?

Ef við fáum athugasemd frá yfirmanni eða kennara. Hvernig bregðumst við við? Segjum við við okkur sjálfar: „Aldrei get ég gert neitt rétt! Ég er ömurleg í þessu! Ég á aldrei eftir að ná tökum á þessu og best fyrir mig bara að hætta!" Hver eru raunveruleg skilaboð þess sem gagnrýndi? Var viðkomandi að kannski að segja óbeint það sem við sjálfar sögðum við okkur? Uuuuu nei! Nefnilega ekki! Ef við hugsum þetta rökrétt og jákvætt þá getum við snúið dæminu á þennan veg fyrir okkur sjálfar og spurt okkur: „Geturðu aldrei gert neitt rétt?" Jú, þú ert alla daga, allan daginn að gera fullt, fullt af hlutum rétt. Hins vegar ertu manneskja og þess vegna gerirðu mistök eins og allir aðrir. „Ég er ömurleg í þessu!" Nei, það ertu ekki. Þótt við fáum ábendingar í starfi eða námi eða hvar sem er þá eru það í 99% tilfella tækifæri sem við getum nýtt okkur til að gera betur. Það dásamlega við gagnrýni er að maður getur lært af henni og nýtt sér það til framdráttar til að verða betri. „Ég á aldrei eftir að ná tökum á þessu og best fyrir mig bara að hætta!" Ef það er raunverulega satt og rétt þá er það eina skynsamlega í stöðunni hvort sem er að hætta til að finna sér eitthvað annað að gera. Við höfum allar hæfileika á hinum ýmsu sviðum og stundum hittist svo á að við dettum ekki niður á það sem við höfum hæfileika til að gera. Þá rísum við einfaldlega upp á afturlappirnar, viðurkennum að aðrir eru betri á þessu sviði - því sannleikurinn er sá að þú ert einfaldlega betri á einhverju öðru sviði. Og hvaða máli skiptir þá hvort þú getir akkúrat þetta? Þú getur hitt!

Auðvitað er ekki sama hvernig er gagnrýnt - hvernig gagnrýnum við aðra sjálfar? Öllum getur sárnað en við erum sérstaklega viðkvæmar fyrir gagnrýni og áreiti þegar við erum eitthvað daprar. Hins vegar þá getum við lært að taka gagnrýni án þess að sárna. Með tímanum getum við lært að stýra því hvaða viðbrögð við sýnum því við getum það - en getum ekki stýrt öðrum. En hvernig gagnrýnum við aðra? Erum við tillitssamar þegar við gagnrýnum eða skvettum við fram gagnrýni á þann hátt að hún særi? Gefum okkur smá tíma til að hugsa um það hvernig við gagnrýnum aðra.

Hvernig tökum við á móti hrósi? Er sama hver hrósar?

Ef einhver kæmi til þín og segði: „Vá, varstu að fá þér nýja peysu? Rosalega klæðir hún þig vel!". Þekkjum við ekki viðbrögð okkar: „Huhh, þessi gamla drusla! Ég er búin að eiga hana í mörg ár og fann hana loksins samanvöðlaða aftast í fataskápnum. Átti ekkert annað til að fara í!". En sannleikurinn er kannski sá að þetta ER ný peysa og innst inni erum við ánægðar með hana, við erum bara ekki ánægðar með sjálfar okkur og kunnum því ekki að taka á móti hrósinu.

Margar í þessum sporum, sem ekki geta tekið við hrósi rangtúlka hrósið og snúa því sér í óhag. „Iss, hún segir þetta bara til að vera kurteis við mig! Ég sé það alveg á henni að henni finnst ég ógeðslega asnaleg í þessari peysu. Af hverju getur hún ekki bara þagað í staðinn fyrir að vera að hæða mig!". En hugsum þetta aðeins. Er þetta í alvörunni rökrétt? Þegar við lítum yfir þetta svona þá sjáum við alveg svarið. Auðvitað er þetta ekki rökrétt, en það er samt okkar að snúa þessu við. Við gætum alveg eins sagt: „Takk fyrir hrósið! Já, ég keypti peysuna í gær, mér finnst hún flott og mér líður vel í henni!". Standið stoltar með bakið beint og takið ánægðar og jákvæðar við hrósinu.

Það er alltaf gott að fá hrós og í raun ætti ekki að skipta máli hver það er sem hrósar. Fólk er misjafnt eins og það er margt og ekki allir sem hafa það í sér að hrósa öðrum. Aftur kem ég að þessum punkti: Við getum aldrei stýrt viðbrögðum annarra eða því hvað aðrir gera, við getum hins vegar stýrt því hvað við sjálfar gerum og hvernig við sjálfar tökumst á við hlutina.

Hvaða áhrif hefur þetta á okkur?

Við ráðum því :) Það er það yndislega við lífið. Og þar kem ég aftur inn á hugsanir mínar á þessum Drottins degi. Er lífið mitt eins og ég vil hafa það? Svarið við þeirri spurningu er kannski ekki beinlínis einfalt, en það er kannski einhvern veginn svona:

Ég á yndislegan kærasta, yndisleg börn og fósturbörn, var að fá mér dásamlegan hund og ég elska þau öll svo ofsalega mikið. Ég er í náminu sem  ég ætlaði mér alltaf í, ég er að kenna þá leikfimi sem ég hef alltaf viljað, er að vinna hugmyndavinnu með yndislegum stelpum fyrir ákveðið málefni sem er mér mjög hugleikið, ég er stöðugt að vinna í sjálfri mér, lifi fyrir einn dag í einu, reyni að koma fram við aðra eins og ég vil að komið sé fram við mig, er heil í því sem ég tek mér fyrir hendur og geri það eins vel og ég get, ber mikla umhyggju fyrir fólki og dýrum og einfaldlega vil öllu og öllum vel. Ég reyni á hverjum degi að hugsa jákvætt, hugsa jákvætt um sjálfa mig og gefa mér þannig tækifæri. En auðvitað á ég mína niður daga eins og aðrir, en þeim fer stöðugt fækkandi og það er dásamlegt!

Niðurstaðan: Berglind - haltu áfram á þessari braut - þú ert að gera góða hluti og þarft ekki að hafa áhyggjur á meðan þú ert eins meðvituð og þú ert núna!

Ást og friður

Berglind


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott færsla systir góð. Væri hollt að lesa hana á hverjum degi.

Svandís (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 12:27

2 identicon

Takk Svandís mín.

Það er alltaf gott og hollt að lesa :)

Berglind (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 14:27

3 identicon

Dásamlegt að lesa þetta :) Ef ég vissi ekki betur héldi ég að þú værir bara að tala við mig :)...talar "óhugnanlega" mikið til mín :/...ætla ég aldrei að verða eins og manneskja? :D Tíhí.

Mútta (IP-tala skráð) 29.1.2010 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Elísa Berglind Sigurjónsdóttir

Höfundur

Rósirnar heilsurækt, breytt og betri líðan
Rósirnar heilsurækt, breytt og betri líðan
Berglind er leiðbeinandi hjá Rósunum heilsurækt, Hátúni 12, Reykjavík. Hægt er að koma á tvö námskeið hjá Rósirnar heilsurækt: Breytt og betri líðan (BBL)og Zumba/lates. BBL er lokað námskeið. Þetta er hópur kvenna sem vill breyta og bæta sína líðan og setja sig sjálfar í fyrsta sæti. Zumba/lates er byggt upp þannig að fyrstu 30-35 mínúturnar er Zumba og styrktaræfingar úr fit-pilates prógramminu teknar í restina. Frábær námskeið! Leitaðu upplýsinga! e.berglind@simnet.is
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Spurt er

Hefur þú prófað fit pilates?

Nýjustu myndir

  • auglýsing 10092011
  • konulíkami IIII
  • konulíkami III
  •  MG 4782(20x25)
  • MECCA II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband