15.8.2011 | 21:09
Stundaskrá haust 2011 (birt með fyrirvara um breytingar)
Tímataflan okkar er sem hér segir:
Rósirnar - Breytt og bætt líðan
Mánudagar kl. 17:00 sundleikfimi
Þriðjudagar kl. 17:00 Brennsla
Miðvikudagar kl. 17:00 Fit-pilates, teygjur, slökun og kósýheit
Fimmtudagar kl. 17:00 Stöðvaþjálfun, þrekhringur, interval, eftirbruni
Fit-Pilates
Mánudagar kl. 19:00 Grunnurinn/fjölbreytni
Miðvikudagar kl. 19:00 Grunnurinn/fjölbreytni
Fimmtudagar kl. 19:00 Pilates æfingar - power/brennsla/interval/þrekhringur/stöðvar (þetta verða hörku púltímar)
Stanslaust fjör og skemmtilegheit :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2011 | 11:16
Dagurinn í dag
Dagurinn í dag
Þegar ég vaknaði í morgun var fyrsta hugsun mín - ég ætla að gera allt sem ég mögulega get í dag til að gera líf mitt og líðan eins yndislegt og mér er frekast unnt!
Það var áður en ég leit út um gluggann og sá að sólin skín á heiðskírum himni, en það hefur vantað ansi mikið upp á sólskin og hlýtt veður hér á Egilsstöðum í sumar. Um leið og ég sá að sólin skein í heiði og varla bærist strá í vindi (af því að það er enginn vindur) þá fylltist ég bjartsýni og kærleika.
Skrýtið hvernig veðrið hefur áhrif á líðanina. Undanfarna daga hefur verið þungbúið, gengið á með rigningu og þoka legið yfir öllu. Hálfkalt. Hitastigið hefur ekki náð tveggja stafa tölu dögum saman. Það dregur orkuna frá manni og maður verður næstum því dapur.
Ég verð mikið vör við áhrif veðursins á skap og líðan þegar ég heimsæki ömmu mína á sjúkrahúsið. Það er yndislegt að sjá allt gamla fólkið, gleðina og brosin - þegar sólin skín :) en að sama skapi er merkilegt hvernig rigning og þoka virðist draga niður bæði líkamlega og andlega heilsu þeirra. Í byrjun síðustu viku var veðrið hér æðislegt í 3 daga í röð. Gamla fólkið fór í gönguferðir, gat sest út á pall, þau fengu jafnvel ís. Ég fór meira að segja með ömmu mína í kaupstað". Allt var létt og skemmtilegt. Um leið og sólin hvarf bak við skýjaþykkildið á himninum og rigningarsuddinn helltist yfir þá strax var eins og drægi úr orkunni og þrekinu.
Við þurfum sólina og hlýjuna, þurfum þessa birtu og orkuna sem fylgir sólinni. Ég er búin að upplifa það mjög sterkt undanfarnar vikur hér í sveitinni". Það verður ofboðslega hlýtt hér en á móti verður svo afar kalt.
Á svona degi eins og í dag finnst mér ég geta gert allt. Mig langar til að gera allt. Hjartað er fullt af kærleika til lífsins og til fólksins sem stendur mér næst. Ég hlakka til að takast á við daginn í dag. Hlakka til að fara á sjúkrahúsið til ömmu og félaga, hlakka til að labba út í hádeginu og fá mér að borða. Það er líka svo skemmtilegt að í dag er ferjudagur" sem þýðir að Norræna leggur að bryggju á Seyðisfirði, ferðamennirnir keyra yfir Fjarðarheiðina hingað á Héraðið og nú iðar Egilsstaðabær af lífi. Ferðamenn af öllum þjóðernum á öllum mögulegum og ómögulegum farartækjum. Þetta er yndislegt :) Það hlýtur að vera mjög sérstakt fyrir ferðamenn að koma hingað í svona veðri, keyra yfir Fjarðarheiðina og upplifa svo útsýnið sem blasir við ofan af heiðinni - fagra Fljótsdalshéraðið eins og það leggur sig.
Þaðan sem ég sit núna á skrifstofunni horfi ég beint yfir að Upplýsingamiðstöðinni. Léttklæddir ferðalangar, fólk með allskonar farangur og myndavélar á maganum. Allir brosandi. Enda ekki hægt - nú eru þeir staddir í nafla alheimsins - á fagra Fljótsdalshéraðinu sem skartar sínu allra fegursta í dag.
Dagurinn í dag lofar góðu. Líka morgundagurinn og hinn og hinn og hinn. Af því að ég er staðráðin í því að láta jákvætt hugarfar leiða mína för. Bjartsýni og jákvæðni verða mínir ferðafélagar og mitt leiðarljós. Það er allt hægt - það sem við þurfum er vilji og löngun. Jafnvel auðmýkt og fúsleiki. Að viðurkenna fyrir sjálfum sér að enginn annar gerir hlutina fyrir mann. Mitt líf verður fullt af jákvæðni og kærleika af því að ég ætla að velja þá leið - fyrir mig.
En ég veit líka að ég get ekki bara verið bjartsýn og jákvæð þegar það er sól úti og hlýtt. Ég þarf að geta verið bjartsýn og jákvæð með hjartað fullt af kærleika sama hvernig viðrar.
Ég þarf að vera í forgangi í mínu lífi. Ég veit að ef ég hugsa ekki um mig sjálfa þá dreg ég úr möguleikanum á því að geta hugsað vel um aðra. Ég á aðeins eina heilsu og ef heilsan klikkar þá skerðast lífsgæði mín og í raun má segja að jafnframt þá muni lífsgæði minna nánustu skerðast líka.
Möguleikarnir á bættum lífsgæðum eru hér og nú. Staðurinn og stundin er núna. Ekki á eftir og ekki á morgun. Núna :)
Hvernig ætlar þú að hafa þinn dag?
Mynd: http://www.east.is/UpplifduAusturland/Baeirogthorp/Skodathettyli/fljotsdalsherad
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2011 | 18:18
Fit Pilates fjölbreytni - síðasta námskeið vetrarins
Fit Pilates Fjölbreytni
Síðasta námskeið vetrarins hefst á morgun mánudag 9. maí!
Tileinkum okkur jákvæðni og gleði og byggjum upp heilbrigða sál í hraustum líkama.
Síðasta námskeið vetrarins í Fit-Pilates byrjar 9. maí og stendur í 4 vikur - með möguleika á að bæta 5. vikunni við.
Tímarnir verða í Mecca Spa á Nýbýlavegi og verða tímarnir 2x í viku - á mánudags- og miðvikudagskvöldum kl. 19:30 - 20:30. Alls 8 skipti.
Námskeiðinu lýkur 1. júní.
Verð kr. 10.000.-
Innifalið í verðinu er aðgangur að tækjasal, heitum potti, gufu, sundlaug og fleiru. Auk þess er 10% afsláttur í glæsilega snyrti- og nuddstofu Mecca Spa á Nýbýlavegi.
Þetta er flott, skemmtilegt og hressandi námskeið sem þú ættir ekki að láta framhjá þér fara. Á þessu síðasta námskeiði vetrarins mun ég keyra mikla fjölbreytni og mikið power í bland við hefðbundið fit-pilates. Mikið fjör og mikið gaman!
Skráðu þig strax - takmarkaður fjöldi þátttakenda kemst að.
Fit-Pilates fjölbreytni er byggt á blöndu úr Fit-Pilates prógramminu þar sem áherslan er á miðju líkamans og stoðkerfi hans. Æfingarnar eru styrkjandi og liðkandi og bæta líkamlegt þrek og andlega líðan. Frábærar æfingar á stóru æfingaboltunum sem koma öllum í gott form.
Fit-Pilates fjölbreytni þjálfar alla kviðvöðva, djúpvöðva, vöðva neðra baks, vöðva umhverfis hryggsúluna, lærvöðva að innan og utan, mjaðmir og rassvöðva. Þegar þessir vöðvar hafa styrkst er stoðkerfi líkamans komið með meiri stuðning.
Allar nánari upplýsingar í síma 891-6901 eða á e.berglind@simnet.is
Berglind Fit-pilates og þolfimi kennari
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2011 | 13:10
Vertu þátttakandi í eigin lífi
"Í febrúar 2005 var ég greind með flogaveiki eftir að hafa legið milli heims og helju á Borgarspítalanum. Búin að fara 4 sinnum á tveim mánuðum með sjúkrabíl vegna flogakasta. Ég var ennþá í bullandi átröskun þarna. En viðurkenndi það samt ekki. Gat ekki viðurkennt það. Ég skammaðist mín niður fyrir öll velsæmismörk. Það eina sem komst að hjá mér var að ég vildi verða mjó. Ég hélt að öll mín vandamál myndu leysast bara við það eitt að verða mjó. Allir myndu taka mig í sátt og öllum myndi líka við mig."
Þetta er brot úr pistli sem ég skrifaði fyrir ári síðan. Þarna var ofboðslega veikum einstaklingi lýst. En hafið þið pælt í því hvað það er margt fólk sem ekki er skilgreint veikt af átröskun, sem hugsar samt akkúrat svona? Ég verð svo sorgmædd þegar ég heyri einstaklinga í kringum mig tala stanslaust um hvað allt verði betra þegar þessi eða hin bungan verði farin? Bunga sem NOTA BENE sést varla. Allt verður betra þegar viðkomandi verði mjór. Mjórri en hvað? Hvað er mjó? Hvað gerist þegar þú verður mjó/r? Fyllist þá líf þitt af blómum og brosi, hamingju og kraftaverkum?
Ég er svo innilega sammála því að það að vera of þung/ur eða of feit/ur er vandamál. Heilbrigðisvandamál. En það hefur bara ekkert að gera með útlit. Það hefur allt að gera með daglega, andlega og líkamlega líðan fólks, möguleika til hreyfingar, verki um allan líkama. Það hefur líka að gera með áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum, stoðkerfissjúkdómum og margt margt fleira.
Margir þurfa aðstoð við að hefja ferðalagið og inngrip heilbrigðisstofnana geta komið þar að góðu gagni. Það er frábært að slíkt sé möguleiki fyrir þá sem á því þurfa að halda. Margir leita aðstoðar hjá sjálfshjálparsamtökum. Það er alveg yndislegt þegar fólk tekur ákvörðun um að hefja ferðalag til breyttrar og bættrar líðunar og heilbrigðara lífernis.
Megrun Átaksnámskeið Síðustu kílóin burt Vertu flott í bikini í sumarHversu oft höfum við ekki heyrt slagorð sem þessi þar sem okkur er lofað fullkomnum líkamsvexti á 6 vikum. Fitubrennsla sem aldrei fyrr. Kaupin bara gerast ekki svona á eyrinni. Það er alveg sama hvað þú vilt það mikið.
Blandaðu þetta duft í vökva og þú færð öll næringarefni sem þú þarfnast Taktu pilluna og þú verður aldrei aftur svöngEndalaus loforð frá framleiðendum og seljendum alls kyns dufts, drykkja og pilla vaða yfir okkur. Þú þarft að vera tilbúin/n til að lifa á dufti það sem eftir er ef árangur á að verða einhver. En það er bara ekki þannig sem við vorum gerð. Við eigum að innbyrða mat. Eigum að tyggja annað en fljótandi fæðu eingöngu. Það er alveg sama hversu mikið þú vilt eitthvað annað.
Gullni meðalvegurinn er sennilega vegurinn sem best er að fara. Fáðu þér einu sinni á diskinn, grænmeti í hvert mál, borðaðu að lágmarki 4 sinnum yfir daginn og umfram allt neyttu fjölbreyttrar fæðu. Minnkaðu magn sykurs og mettaðrar fitu. Þetta er ekkert voðalega flókið. Að lokum, ekki láta vigtina segja þér hvernig skapi þú átt að vera í þennan eða hinn daginn. Stígðu ekki oft á vigt, notaðu spegil, málband og föt til að meta árangur ferðalagsins.Það skiptir öllu máli að finna aðferðina sem gefur okkur einstaklingunum, sem öll erum svo ólík, aðferð sem hleypir birtu og yl inn í lífið okkar, aðferð sem gefur okkur bjartsýni og trú á tilveruna og gerir það að verkum að okkur langar virkilega að lifa og njóta. Aðferð sem byggir á jafnvægi á milli andlegrar uppörvunar, hreyfingar og heilbrigðs mataræðis.
Besti vinur depurðar og skorts á áhuga er hreyfingarleysi.Það er alveg með ólíkindum hvað mataræði hefur mikið að segja þegar kemur að almennri líðan okkar. Það, að borða reglulega heldur blóðsykrinum í jafnvægi og það heldur geðinu í jafnvægi. Það, að hreyfa sig reglulega bætir ekki bara andlega líðan okkar, heldur styrkir það hjarta og æðakerfi, eykur þol og gefur okkur kraft, eykur úthald, lækkar blóðþrýsting, styrkir vöðvana og áfram mætti telja endalaust.
Tilgangurinn með því að hreyfa sig, stunda líkamsþjálfun og borða hollan mat ætti að vera sá að okkur sem einstaklingum líði vel í þeim líkama sem okkur var úthlutað. Svo einfalt er það. Við getum ekki farið illa með líkamann og haldið að það kosti ekkert. Líkaminn er musteri sálarinnar og ef við ætlum að hugsa vel um líkamann þá verðum við að hugsa vel um sálina líka. Það gerum við með því að þjálfa hvorttveggja samhliða.
Stundaðu heilbrigt líferni fyrir þig á þínum forsendum. Lífið er ferðalag, það er heilbrigt líferni einnig. Þetta er ferðalag sem aldrei tekur enda. Heilbrigt líferni er yndislegt ferðalag sem þú tekur þátt í eingöngu fyrir þig, til að þér líði sem allra best í þeim aðstæðum sem banka uppá í þínu lífi.
Í ferðalaginu muntu upplifa góða tíma en þú munt líka upplifa miður góða tíma. Hvorttveggja er óhjákvæmilegt. Leyfðu þér að gera mistök, ekki refsa þér þótt markmið dagsins í dag hafi ekki gengið eftir. Þú einfaldlega stendur upp og heldur áfram þaðan sem frá var horfið næsta dag. Gær dagurinn er liðin stund, líka það sem gerðist áðan. Þú getur ekki breytt því sem er liðið. Morgundagurinn er ekki kominn. Þú veist ekkert hvað gerist á morgun. En það sem þú getur gert er að hugsa um daginn í dag. Þú getur hugsað um líðandi stund. Núið. Hvernig ætlarðu að bregðast við því sem er að gerast núna. Stattu með þér.
Vertu þátttakandi í eigin lífi settu þig í forgang.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2011 | 14:30
:)
Ekki borða til að gleðja aðra - það endar bara með ósköpum.
Ég las þessa setningu hjá konu á facebook um daginn og finnst algjör snilld.
Hversu oft segjum við já takk" þegar okkur er boðið eitthvað þótt við vitum að það geri okkur ekki gott að fá okkur?
Hversu oft þiggjum við sælgæti, kökur, mat, gos, ís án þess að okkur langi nokkuð í?
Og ef við veltum fyrir okkur forsendunum fyrir því hvers vegna við þiggjum veigarnar - úff. Við höldum að við séum að gleðja aðra. Oftar en ekki sitjum við svo í súpunni með ákaflega neikvæðar tilfinningar og samviskubit og sjálfsálit í molum.
Enginn getur fengið þig til að finnast þú minni máttar án þíns samþykkis. Það hefur enginn leitt þig í freistni - þangað hefurðu gengið ein og óstudd.
Þú mátt segja nei takk. Það er þinn persónuréttur. Enginn getur tekið af þér þinn persónurétt.
Kærleikur
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2011 | 11:44
Þriðjudagur og áfram höldum við :)
Góðan daginn elsku stelpurnar mínar!
Hvað er að frétta? Hvernig hafið þið það á þessum annars fína Drottins degi?
Ráðgátan leyst (fann þetta á netinu um daginn).....
Fyrsta daginn skapaði Guð hundinn. Guð sagði: "Sittu allan daginn við dyrnar á húsinu þínu og geltu að öllum sem ganga inn eða ganga framhjá. Lífshlaup þitt mun verða 20 ár." Þá sagði hundurinn: "Það er alltof langur tími til þess að vera geltandi, hafðu árin frekar tíu og ég gef þér til baka hin tíu." Guð samþykkti þetta.
Annan daginn skapaði Guð apann. Guð sagði: "Skemmtu fólki, framkvæmdu apabrögð og komdu fólki til að hlægja. Lífshlaup þitt mun verða 20 ár". Þá sagði apinn: "Framkvæma apabrögð í tuttugu ár, ég held ekki. Hundurinn gaf til baka tíu og ég ætla að gera það líka." Guð samþykkti það.
Þriðja daginn skapaði Guð kúna. Guð sagði: "Þú þarft að fara út á tún með bóndanum og dvelja þar allan daginn og þjást undir sólinni, svo munt þú eignast kálfa og mjólka þannig að bóndinn geti séð fyrir fjölskyldu sinni. Lífshlaup þitt mun verða 60 ár." Kýrin sagði: "Svo erfitt líf í sextíu ár, gefðu mér frekar tuttugu og ég gef til baka fjörutíu ár." Guð samþykkti það.
Á fjórða degi skapaði Guð manninn. Guð sagði: "Borðaðu, sofðu, leiktu þér, giftu þig svo og njóttu lífsins. Lífshlaup þitt mun verða 20 ár. Þá sagði maðurinn. "Hvað, bara 20 ár? Heyrðu, ég tek mín tuttugu og þau fjörutíu sem kýrin gaf til baka og tíu árin frá apanum og svo tíu árin sem hundurinn gaf til baka, það gera samtals áttatíu ár. Er það í lagi?" "Það er í lagi", sagði Guð.
Svo þarna er kominn skýringin á því hvers vegna við borðum, sofum, leikum okkur og njótum lífsins fyrstu 20 árin, svo þrælum við í sólinni næstu 40 árin til þess að sjá fjölskyldu okkar farborða, svo næstu 10 árin þar á eftir högum við okkur eins og apar til þess að hafa ofan fyrir barnabörnunum og síðustu tíu árin sitjum við á veröndinni og geltum að öllum sem koma eða ganga framhjá.
Þetta var lausn gátunnar um lífið................eða þannig sko.
Ég hvet ykkur til að vera duglegar að koma í leikfimina og ekki hika við að senda mér tölvupóst eða hringja í mig ef það er eitthvað sem ég get hjálpað ykkur með eða ef þið viljið spjalla :)
Hlakka til að sjá ykkur í kvöld, njótið dagsins og verið góðar við ykkur sjálfar með því að hugsa fallega um ykkur og til ykkar.
4 lykilatriði hvers dags:
Þolinmæði - Jákvæðni - Bros - Sjálfsmeðvitund
Vertu þolinmóð - þú breytir ekki líðan og lífsstíl á einum degi. Það verða alltaf nokkur skrefin afturábak, en það er allt í lagi því við vitum að við getum svo vel risið upp aftur og haldið áfram.
Vertu jákvæð - allt sem þú gerir byggist upp á jákvæðu hugarfari. Þú getur haft áhrif á alla þætti lífs þíns með því að byggja upp jákvætt hugarfar og snúa neikvæðum hugsunum upp í jákvæðar hugsanir. Lífsstílsbreyting og heilsuefling er hugarfarsbreyting.
Vertu brosandi - bros smitar. Ef þú brosir til annarra þá er næstum því bókað að þú færð bros til baka. Ef þú brosir framan í eigin spegilmynd um leið og þú lítur í spegil að morgni, þá geturðu haft áhrif á það hvernig dagurinn þinn verður. Ákveddu fyrir þig sjálfa að morgni hvernig dag þú vilt upplifa.
Vertu sjálfsmeðvituð - það að vera meðvituð um sjálfa þig og það sem þú ert að takast á við getur skipt sköpum fyrir þann árangur sem þú munt. Að hafa hugann við markmiðið skiptir máli. Þú sáir, þú uppskerð og þú nýtur ávaxtanna. Þú.
Hafið Gullnu regluna á bak við eyrað:
Borðum flestan mat og sem fjölbreyttastan, fáum okkur einu sinni á diskinn og hreyfum okkur að lágmarki þrisvar í viku!
Kærleikur og ást
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2011 | 13:35
Falleg orð frá Rós
Ég er ótrúlega ánægð með þessa tíma sem ég hef notið til fullnustu.
Langaði ekki að skrópa þessa þrjá sem ég komst ekki.
Núna held ég bara áfram að styrkjast og eflast og grennast og er það allt þér að þakka því þú hvetur mig svo og þær allar hinar fá líka að njóta smá. ha hahaha.
Þessi tími er búinn að vera meiriháttar fyrir mig og þakka ég þeim heima oft fyrir jólagjöfina mína sem var þessi tími með þér og hinum konunum.
Nú er bara að halda áfram og áfram.
Ég hlakka til á hverjum degi að sprikla smá með ykkur.
Bestu kveðjur
Linda Björk.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2011 | 13:02
Hvatning í upphafi mánaðar
Góðan daginn elsku stelpurnar mínar,
Hvað segið þið gott í dag?
Ohhh, tíminn tíminn tíminn. Hann er svo fljótur að líða. Ég setti árið 2011 upp sem ár heilsunnar. Nú eru tveir mánuðir liðnir af árinu og mér finnst árið rétt byrjað. Við erum búnar að skoppa um í ræktinni í heila tvo mánuði. Það er alveg ótrúlegt - en engu að síður SATT.
Hvernig er ykkur búið að ganga það sem af er? Eruð þið að ná ykkar markmiðum?
Það eru búin að vera mikil veikindi allsstaðar í kringum okkur í vetur og okkar litli hópur hefur ekki farið varhluta af því.
Eruð þið nokkuð að gefast upp skvísur? Veikindi mega ekki draga úr okkur löngunina og ákefðina til að halda áfram. Vissulega draga veikindi úr orkunni okkar og það leggst vissulega misþungt á okkur að vera veikar, en ef við höldum einbeitingunni og höfum hugann áfram við raunhæfu markmiðin og litlu skrefin þá er ekkert sem ætti að aftra okkur frá því að snúa til baka í ræktina eftir veikindin. Við þurfum þó að hafa í huga að fara rólega af stað.
Hver hefur ekki upplifað að nenna alls, alls ekki að fara í leikfimina núna, en ákveða svo að drífa sig? Finna svo þessa yndislegu tilfinningu sem fyllir mann þegar tíminn er búinn og endorfínið streymir um líkamann. Ohhh, ekkert er betra.
Stelpur - það má ALLTAF finna sér tíma til að rækta líkama og sál. Það getur ekki verið að við séum svo uppteknar að við getum ekki gefið okkur sjálfum þessa mikilvægu gjöf sem hreyfing er! Líkamsrækt á að vera skemmtileg og okkur á að líða vel í ræktinni og staðan er þannig að tilhlökkun ætti að ráða för - ekki skyldurækni, þótt vissulega sé það að hluta til skyldurækni sem rekur mann af stað sérstaklega í upphafi.
Það eru óteljandi tegundir af hreyfingu til og það ættu ALLIR að geta fundið hreyfingu við sitt hæfi. Ég held að óhætt sé að fullyrða að ALLIR geti fundið hreyfingu við hæfi.
Nokkrar ykkar ákváðu í upphafi að vera 3 mánuði - það er einn mánuður eftir af því tímabili. Hvernig væri að nýta sér þann tíma súper vel?
Líkamsrækt ætti að vera skemmtileg - ekki síst vegna þess að um leið og við æfum og styrkjum líkamann þá styrkjum við og styðjum andlega líðan.
Sjálfsrækt líkama og sálar er ferðalag og uppskeran eða árangurinn fer eftir því hvernig sáningin var. Þú uppskerð eins og þú sáir. Þetta tekur tíma. En veistu - þú nærð árangri.
Líkami og sál eru að mestu leyti sami hluturinn og hvort tveggja verður að rækta samhliða.
Ég hvet konur sem eru að hugsa um að fara að gera eitthvað fyrir sig varðandi rækt á líkama og sál að hætta að hugsa um það og bara fara og framkvæma það :) Á Íslandi er yndisleg flóra fjölbreyttra tækifæra í hreyfingu og líkamsrækt og það er um að gera að finna það sem hentar.
Fyrsta skrefið gæti verið að hafa samband við mig - ég get hjálpað ykkur af stað :) e.berglind@simnet.is eða 891-6901
Faðmlag, bros og ást
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2011 | 23:54
Þú ert best eins og þú ert
Gömul kínversk kona átti tvo leirpotta sem hún hengdi á sitthvorn endann á langri stöng sem hún bar á öxlum sínum. Á hverju degi sótti hún vatn langa leið í uppsprettu fjarri heimilinu. Annar potturinn var sprunginn eftir endilöngu og var því aðeins hálffullur þegar heim kom. Hinn potturinn var fullkominn og skilaði sér alltaf fullur af vatni eftir þessa löngu leið heim að húsinu.
Svona gekk þetta í tvö ár, daglega gekk gamla konan með pottana að uppsprettunni og daglega kom hún heim með aðeins einn og hálfan pott af vatni.
Auðvitað var fullkomni potturinn ánægður með sína frammistöðu en sprungni potturinn skammaðist sín og leið mjög illa þar sem frammistaða hans var aðeins til hálfs við það sem hann var skapaður til að gera.
Eftir tveggja ára vinnu talaði hann til konunnar við uppsprettuna. "Ég skammast mín fyrir frammistöðu mína, vegna sprungunnar á hlið minni lekur helmingurinn af vatninu burt á leiðinni heim. Þú ættir að henda mér og fá þér nýjan pott."
Gamla konan brosti, "Hefur þú tekið eftir að þín hlið við götuna er blómum skreytt, á meðan engin blóm vaxa hinum megin götunnar? Vegna þess að ég hef alltaf vitað af þessum galla þínum, þá sáði ég fræjum á þinni hlið götunnar og á hverjum degi þegar við göngum heim vökvar þú blómin mín. Ég hef um árabil getað týnt þessi fallegu blóm og skreytt heimili mitt með þeim. Af því þú ert eins og þú ert, þá hef ég fengið að njóta fegurðar blómanna."
Enginn er eins og ég og enginn er eins og þú. Engin okkar er eins. Við höfum allar okkar galla, en gallar okkar geta jafnframt verið okkar helstu kostir. Við erum stórkostlegar eins og við erum. Ef okkur hefði verið ætlað að vera eins og aðrir, þá værum við þannig. Eyðum ekki lífinu í að óska þess að við værum öðruvísi en við erum. Hættum að reyna að þröngva sjálfum okkur inn í einhver fyrirfram skipulögð form og mót sem einhverjir sem við jafnvel þekkjum ekki hafa búið til. Við eigum ekki heima þar. Við eigum heima þar sem okkur líður vel, þar sem við finnum frið í sálinni, þar sem við erum sáttar. Láttu sjálfstraustið ráða, settu þér þín eigin mörk þar sem þú sjálf ræður ríkjum, fyrir þig sjálfa og engan annan. Þú er yfirmaður þíns lífs.
Þú er sú sem sáir fyrir þitt líf, þú uppskerð og þú færð að njóta ávaxtanna.
Ekki láta annað fólk stjórna
því hvernig þér líður á
daginn. Taktu afstöðu fyrir
þitt líf og settu þér markmið
sem henta þér. Þú ert
stórkostleg kona og þú átt
skilið að upplifa það besta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2011 | 11:16
Mánudagur - ný vika - bjarstýni og jákvæðni
Nú er ný og yndisleg vika að fara í hönd og bjartsýni og jákvæðni er tilvalinn ferðafélagi nú sem fyrr.
Mig langar að senda ykkur mína allra bestu strauma inn í þessa viku. Sendi aðeins það besta til ykkar því það eigið þið skilið. Þið eigið skilið að umvefja ykkur sjálfar sælu og gleði og vera þakklátar ykkur sjálfum fyrir að gefa ykkur tækifæri á því að að næra ykkur, bæði á sál og líkama. Eins og ég sagði við ykkur í síðustu viku þá má líta á þá ákvörðun að breyta um lífsstíl sem tækifæri til að gera allt sem við getum til að okkur sjálfum líði sem best. Á hverjum degi.
Við erum í forgangi í okkar lífi. Ef við hugsum ekki vel um okkur sjálfar þá drögum við úr möguleikanum á því að hugsa vel um aðra. Við eigum aðeins eina heilsu og ef heilsan klikkar þá skerðast lífsgæði okkar. Það er alveg ljóst. Möguleikar okkar á því að bæta heilsuna eru hér og nú.
Reglubundin hreyfing er það besta sem við getum gert fyrir andlega heilsu okkar ekki síður en líkamlega heilsu. Einn læknir sagði við mig fyrir nokkrum árum þegar ég stóð frammi fyrir því að berjast fyrir lífinu eða gefast upp: besti vinur þunglyndis og depurðar er hreyfingaleysi". Ég var svo brjálæðislega þunglynd og veik af átröskun að fyrir mér voru bara tvær leiðir. Uppgjöf eða barátta. Í mörg ár barðist ég fyrir bættri heilsu minni. Datt niður á botninn og krafsaði mig upp aftur. Aftur og aftur. En ég hafði alltaf leiðarljós.
Mitt leiðarljós var bjarstýni og jákvæðni. Það er allt hægt - það sem við þurfum er vilji og löngun. Jafnvel auðmýkt og fúsleiki. Að viðurkenna fyrir sjálfri sér að enginn annar gerir hlutina fyrir mann. Allt í kringum okkur er aðstoð að fá. Þið allar hafið ákveðið að gera eitthvað fyrir ykkur sjálfar - setja ykkur sjálfar í forgang. Þið kusuð BBL sem ykkar leið. Hér er aðhald, hér er hvatning, hér er stuðningur. Í hópnum getum við fengið þann stuðning sem við þurfum því allar erum við að glíma við eitthvað í lífinu. Það sem er svo skemmtilegt og gott við hópinn er að við erum staddar á svo mismunandi stað. Sumar eru á byrjunarreit - aðrar komnar miklu lengra. En við erum allar hér af því við kusum svo.
Enginn gerir þetta fyrir okkur. Jóna í næsta húsi fer ekki að hreyfa sig til að okkar heilsa batni. Við hreyfum okkur ekki til að Sigga á fjórðu hæð fái bætta heilsu. Nei, við þurfum að hugsa um að við erum að gera þetta fyrir okkur sjálfar - engan annan. Við framkvæmum og uppskerum eins og við sáum.
Breyting á lífsstíl er ferðalag og BBL er breytt og bætt líðan. Þetta er upphafið að einhverju alveg dásamlegu. Hugsum þetta ferðalag einn dag í einu - eitt skref í einu. Markmiðið sem við getum sett okkur í upphafi er að breyta mynstrinu og bæta líðanina. Það er langtímamarkmið. Skammtímamarkmiðin eru unnin einn dag í einu. Andleg næring er jafn nauðsynleg og líkamleg. Við þurfum að tileinka okkur þá góðu aðferð að nota jákvæðar hugsanir í stað neikvæðra. Það krefst æfingar, en er ákaflega árangursríkt ef það er notað. Hugsum fallega um okkur sjálfar og til okkar sjálfra.
Heilsubankabókin:
Leiðbeiningar um notkun:
- 1. Taktu "LÍKAMSRÆKT" inn 3x - 5x í viku, 15mín - 60mín í senn, allt árið
- 2. Nærðu líkamann á hollum og næringarríkum mat
- 3. Sjáðu til þess að þú fáir nægan svefn ( 8 klst á sólarhring)
- 4. Hugsaðu jákvætt um sjálfa þig oft á dag og vertu bjartsýn
- 5. Mundu að það eru í raun ekki til vandamál heldur aðeins lausnir við þeim málum sem við stöndum frammi fyrir í hvert sinn
- 6. Besti vinur þunglyndis og depurðar er hreyfingarleysi
- 7. Hamingjan er ekki í fortíðinni, hamingjan er ekki í framtíðinni, hamingjan er í hjarta þínu núna
- 8. Hugsaðu um einn dag í einu og taktu lítil skref og þú nærð markmiðum þínum
- 9. Skrifaðu matardagbók að minnsta kosti einn dag í viku
- 10. Þakkaðu fyrir hvern dag. Þakkaðu fyrir það sem þú hefur en ekki það sem þú hefur ekki
Andleg næring er jafn nauðsynleg og líkamleg. Við þurfum að tileinka okkur þá góðu aðferð að nota jákvæðar hugsanir í stað neikvæðra. Það krefst æfingar, en skilar sér margfalt til baka.
Hugsum fallega um okkur sjálfar og til okkar sjálfra.
Kærleikskveðja
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Elísa Berglind Sigurjónsdóttir
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Ágúst 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Maí 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
Tenglar
Mínir tenglar
- Mecca Spa
- Frábært blogg í baráttu við átröskun
- Stúdíó Sóleyjar
- Yoga með Maggý Dásamlegt yoga, Meðgöngu og mömmu yoga.
- Fit - Pilates á Íslandi Frábært æfingaprógramm
- Ragga Nagli Frábær síða full af fróðleik og góðum pistlum
- Umfjöllun um Átröskun hjá Sölva
- Overeaters Anonymous
- Greysheet Anonymous
- Hug-mynd, Hugur/líkami/sál
- Cafe Sigrún
- Góð heilsuræktarhugleiðing
- Hvað er í matnum
- Upplýsingasíða um fæðuofnæmi
- Heimilis uppskriftir
- Heilsubankinn
- MFM Miðstöðin
- Geðhjálp
- Kærleiksvefur Júlla
- Átaksblogg
- Elín Helga Egilsdóttir
Spurt er
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar