Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Með tímanum kemstu upp á lag með að njóta

Njóta þess að hreyfa þig og njóta þess að borða. Þú munt læra að setja þér markmið og fara eftir þeim. Það eina sem þú þarft er virkilegur VILJI til að gera það sem þú ætlar þér og þú þarft að TRÚA því að þetta sé hægt.

TRÚ og VILJI eru ákaflega stór orð, en þetta eru ekki bara orð. Þetta eru mikilvæg orð og mikilvægur hluti af því að líða vel í eigin líkama og líða vel sem maður sjálfur. Vera trúr sjálfum sér og vilja vera það sem maður er.

Það gerir þetta enginn fyrir þig. Þetta er þitt verk. Og þú uppskerð ávexti (og örugglega grænmeti líka) :)

Það er mjög gott að miða við eftirfarandi fjögur lykilorð:

Þolinmæði, Jákvæðni, Bros og Meðvitund.

Þolinmæði er grundvöllurinn. Skyndilausnir virka aldrei. Markmiðin sem þú setur þér verða að vera langtímaferli. Það er nýji og breytti lífsstíllinn sem þú ætlar að tileinka þér til frambúðar. Markmiðin eru ekki sex eða níu vikna kúr. Þú vilt varanlegan árangur. Þú þarft líka að muna að konur eru misjafnar eins og þær eru margar og ná misjöfnum árangri á mislöngum eða skömmum tíma. Þú varst lengi að byggja upp þinn fyrr lífsstíl – þú ert því ekki aðeins einn dag að læra að breyta honum til baka. Þú munt eiga einhver skref afturábak, en það er allt í lagi því þú veist að þú getur alltaf staðið upp aftur og haldið áfram.

En mundu að allt sem þú hefur lært – það geturðu aflært. Hafirðu vilja, trú og löngun til, þá geturðu allt.

Jákvæðni er lykillinn. Allt sem þú gerir byggist upp á jákvæðu hugarfari. Trú á þig sjálfa byggist á jákvæðu hugarfari. Það er með hreinum ólíkindum hvað líf okkar getur breyst og einhvernveginn allt orðið auðveldara aðeins við það eitt að snúa neikvæðu hugarfari upp í jákvætt. Það þarf aðeins eina jákvæða hugsun til að hrekja heilan her af neikvæðum hugsunum á braut.

Það reynir oft á andlegu hliðina  þegar við erum að breyta til. Það geta verið ansi róttækar breytingar sem einstaklingur stendur frammi fyrir þegar hann ætlar að breyta um lífsstíl. Þú mátt alls ekki gleyma því að þú munt eiga góða daga og þú munt eiga slæma daga. En hugarfarið ber okkur hálfa leið. Jákvætt hugarfar þarftu að tileinka þér - það reynir einmitt á jákvætt hugarfar þegar við söðlum um og breytum um lífsstíl. Spennandi og krefjandi - en umfram allt gefandi.

Allt sem við gerum krefst þess af okkur að við hugum að okkar eigin hugarfari. Það skiptir engu máli hvað öðrum finnst eða hvernig aðrir eru - það eru okkar eigin viðhorf, hugsanir og tilfinningar sem skipta máli. Við þurfum að reyna að halda sem best í jákvæða hugarfarið okkar.

Bros er smitandi. Brostu og til þín verður brosað á móti. Það er næstum því hægt að ganga út frá því sem vísum hlut. Bros eru smitandi og kosta ekkert. Brostu framan í þína eigin spegilmynd á hverjum morgni. Horfðu á þig í speglinum og brostu. Þú myndir ekki trúa hversu afgerandi góð áhrif það getur haft á daginn þinn.

Meðvitund er mikilvæg. Vertu meðvituð um það sem þú ert að gera og takast á við. Það að hafa hugann við efnið getur skipt sköpum fyrir þann árangur sem þú munt ná. Hafðu hugann við markmiðin þín því það skiptir miklu máli. Vertu með hugann við að borða jafnt og þétt. Vertu með hugann við það sem þú borðar. Vertu með hugann við að hreyfa þig reglulega. Vertu með hugann við að fá næga hvíld, veittu sjálfri þér næga athygli og veittu sjálfri þér nægan kærleika.

Vertu einnig með hugann og meðvitundina á því að það koma uppsveiflur og það koma niðursveiflur. Það er eðlilegt í lífi hverrar manneskju. Það er góð tilfinning að standa upp eftir niðursveiflu og halda áfram. Það gerir okkur sterkari og þannig smám saman fækkar niðursveiflunum.

Vertu meðvituð um að dagurinn í gær er liðinn, það sem gerðist áðan er liðið. Láttu hið liðna bæta þig sem manneskju og lærðu af mistökum. Það er ekkert sem þú getur gert til að taka til baka það sem hefur gerst, en það sem þú getur gert er að horfa fram á veginn, lifa fyrir daginn í dag og gera allt sem þú mögulega getur til að láta þér líða sem allra best.

Þú ert það dýrmætasta sem þú átt.

Við þurfum að muna að það er ekkert til sem heitir vandamál bara lausnir.

Gott ráð er að skrá niður það sem borðað er á daginn. Til að halda meðvitund er gott að skrifa niður allt, alveg sama hversu lítið það er sem neytt er. Með þessu móti verður þú meðvitaðri um hvað þú ert að láta ofan í þig og þú sérð hvenær þú ert að borða og þú sérð magnið. Þú þarft að finna þína leið – kannski hentar það þér ekki að skrá niður – prófaðu og athugaðu.

Breyttan lífsstíl þarf að taka í smáum skrefum og ætla sér ekki um of. Ekki einblína á vigt og málband og það að telja hitaeiningar. Breyttan lífsstíl þarf að skoða með því hugarfari að mæta í ræktina reglulega, borða reglulega - jafnt og þétt yfir daginn, snúa neikvæðum hugsunum yfir í jákvæðar og bæta sjálfsmyndina með því móti. Með því að horfa í spegilinn og brosa.

Reyndu að borða sem flestan mat. Hafa ber í huga að allur matur inniheldur orku. Það er alveg  sama hvaða matur það er. Við þurfum orku til að lifa. Líttu á þetta þannig að bíll þarf orku til að geta keyrt - líkaminn okkar þarf orku til að geta lifað og starfað eðlilega. Við þurfum orku til að geta sinnt okkar daglegu störfum. Öll umframorka sem innbyrt er breytist í það sem er í daglegu tali kölluð líkamsfita. Með öðrum orðum, það sem gerist er að þessi umframorka sest utan á líkama okkar og veldur okkur vanlíðan og getur á vissum tímapunkti orðið lífshættulegt.

Þú þarft að vera meðvituð um það hvað þú ert að borða og hversu mikið þú ert að borða. Skammtastærðirnar skipta öllu máli. Gullna reglan er: 4-5 litlar máltíðir á dag, fá þér einu sinni á diskinn og skipuleggja daginn. Gott að borða 3 aðalmáltíðir og 1 – 2 aukabita. Með tímanum, litlum skrefum - einu í einu - þá mun þetta allt saman ganga upp. Vittu til!

Hreyfing er einnig gríðarlega mikilvægur þáttur í þessu ferli öllu. Mataræði og hreyfing eru samtvinnaðir þættir og ef þú hugar að því hvorutveggja þá uppskerð þú bætta og betri líðan.

En ÞÚ verður að vilja það - það ert ÞÚ sem sáir og ÞÚ sem uppskerð

Réttu úr hryggnum og brostu. Líkamsburður er mikilvægur og það sama á við um hvernig þú hreyfir þig. Ef þú venur þig á að brosa þá geislar þú af velgengni og gleði. Ef þú sýnir að þú sért stolt og ánægð, sýnir að þú tekur afstöðu til manna og málefna mun það færa þig í réttan farveg í lífinu. Ef þú brosir til annarra muntu fá bros til baka frá þeim. Við það eitt að brosa breiðist gleði út yfir andlit þitt og þú munt óumdeilanlega geisla af gleði og fegurð. Gleymdu því aldrei!


Hamingjan er fólgin í því einfalda og fábreytta.

 

Hamingjan er fólgin í því einfalda og fábreytta.

Hamingjan fæst hvorki keypt né seld.

Hamingjan er hér og nú. Bústaðurinn sem hún kýs sér

er einfalt og fábreytt hjartalag ♥

Njótið lífsins hvar sem þið eruð,

njótið þess að vera þið sjálf -

eins og þið eruð ♥


Um bloggið

Elísa Berglind Sigurjónsdóttir

Höfundur

Rósirnar heilsurækt, breytt og betri líðan
Rósirnar heilsurækt, breytt og betri líðan
Berglind er leiðbeinandi hjá Rósunum heilsurækt, Hátúni 12, Reykjavík. Hægt er að koma á tvö námskeið hjá Rósirnar heilsurækt: Breytt og betri líðan (BBL)og Zumba/lates. BBL er lokað námskeið. Þetta er hópur kvenna sem vill breyta og bæta sína líðan og setja sig sjálfar í fyrsta sæti. Zumba/lates er byggt upp þannig að fyrstu 30-35 mínúturnar er Zumba og styrktaræfingar úr fit-pilates prógramminu teknar í restina. Frábær námskeið! Leitaðu upplýsinga! e.berglind@simnet.is
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Spurt er

Hefur þú prófað fit pilates?

Nýjustu myndir

  • auglýsing 10092011
  • konulíkami IIII
  • konulíkami III
  •  MG 4782(20x25)
  • MECCA II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband