Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010
18.3.2010 | 09:57
Er ekki dagurinn í dag yndislegur?
Fyrir mér snýst þessi spurning um val. Ég vaknaði við vekjaraklukkuna í morgun og það fyrsta sem ég hugsaði var: OMG, ég nenni ekki á fætur! Nenni ekki að fara að læra. Nenni ekki að setja í vél, brjóta saman þvott, versla í matinn og allt hitt sem ég þarf að gera. Bara nenni því ekki!"
En þegar ég var búin að snúsa" vekjarann í tvígang valdi ég jákvæðnina. Ég valdi jákvæðnina því ég veit að dagarnir mínir, þegar ég vel að vera jákvæð, eru miklu betri en hinir. Þetta er alltaf spurning um val. Ég vel það sjálf hvernig ég bregst við aðstæðum. Já, hvernig ÉG bregst við aðstæðum. Ég get aldrei valið hvernig aðrir bregðast við. Ég vel bara fyrir mig :)
Þetta er svo mikið lykilatriði. Grundvöllur að mörgu leyti fyrir því að ráða eigin örlögum", ef ég get tekið svoleiðis til orða. Hvað VIL ég og hvað VEL ég.
Á hverjum einasta degi eigum við samskipti við fólk. Hvort sem um er að ræða vini, ættingja, vinnufélaga, skólafélaga eða til dæmis fólk sem veitir okkur þjónustu. Á hverjum degi stöndum við líka frammi fyrir því að fá ekki algjörlega það sem við viljum, hlutir og aðstæður eru ekki alltaf okkur í hag. En hvernig bregðumst við við? Ég valdi mér eina mjög góða leið fyrir mörgum árum, leið sem hefur hjálpað mér mikið í samskiptum við fólk. Ég valdi mér að lifa eftir þeim formerkjum að koma fram við aðra eins og ég vil að komið sé fram við mig."
Það, að koma fram við aðra eins og ég vil að komið sé fram við mig" hefur að mörgu leyti snúið lífi mínu til hins betra. Mér gengur miklu betur að eiga samskipti við fólk, mér gengur miklu betur að velja jákvæðni fyrir mig og mér gengur miklu betur að eiga við sjálfa mig. Því þetta á líka við um mig sjálfa. Að koma fram við sjálfa mig eins og ég vil að aðrir komi fram við mig." Þetta er nefnilega líka þannig að maður þarf að vera góður við sjálfan sig, elska sjálfan sig og virða sjálfan sig. Ekki bara aðra.
Þegar ég valdi jákvæðni í morgun, fyrir daginn MINN í dag, þá varð allt eitthvað svo viðráðanlegra. Ég vil eiga góðan dag. Ég hef eytt allt of mörgum dögum, vikum, mánuðum, já og árum í að vera döpur, velta mér upp úr því að ég hafi lent í hinu og þessu. Gerði sjálfa mig að fórnarlambi, setti sjálfa mig inn í járngirt búr, læsti og henti lyklinum. Föst í eigin vanlíðan. Ég komst ekki út úr búrinu - ég var svo föst í að aðrir gerðu mér þetta. Það vill enginn vera með mér. Ég á bara skilið það versta!" Ég skildi ekkert í því af hverju ég væri ekki hamingjusöm, af hverju mér liði ekki betur, af hverju ég væri ekki svona og svona betri, af hverju aðstæður mínar væru eins og þær voru. En svo áttaði ég mig á því að ég er minn eigin gæfusmiður. Enginn getur breytt mér eða gert líf mitt betra nema ég sjálf. ÉG þarf að vinna vinnuna í mínu eigin lífi.
Ég hef oft sagt að í lífinu séu ekki til vandamál, aðeins lausnir. Það tók mig áralanga baráttu við sjálfa mig og alltof mikla vanlíðan að fara að trúa þessu. Ég barðist á móti. Skildi bara ekki þessa einföldu staðreynd að ÉG og aðeins ÉG gæti breytt mér og minni líðan. Það skiptir ekki máli hvað aðrir segja og gera - það sem skiptir máli er hvernig ÉG ætla að bregðast við því - fyrir MIG. Að skilja og trúa að lífið væri ekki vandamál. Að skilja að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar! Lífið er fullt af tækifærum, fullt af opnum dyrum. Í staðinn fyrir að stara á lokuðu dyrnar fór ég að líta í kringum mig og skoða allar opnu dyrnar. Þvílík snilld. Hvernig ætla ég að leysa þær þrautir sem lífið leggur fyrir mig? Þessar þrautir eru nefnilega ekki vandamál - því það er til lausn. Það er alltaf til lausn og alltaf möguleikar á því að halda áfram, með jákvæðni og með bros að vopni.
Bros er smitandi. Svo mikið er víst. Það er eins og H1N1. Bráðsmitandi. Eini munurinn er auðvitað sá að vil viljum bros, en við viljum ekki H1N1 J Bros gerir okkur jákvæð. Bros sem við fáum til baka gerir okkur líka jákvæð.
Í áraraðir eyddi ég lífinu í vanlíðan, eyddi lífinu í að velta mér upp úr öllu því sem hafði komið fyrir mig. Ég sat og grét og bölvaði og vorkenndi sjálfri mér. Fann mér ýmsar leiðir til að halda mér á botninum, halda mér í vanlíðan. Halda mér ofan í djúpu svörtu holunni sem ég var búin að búa mér til í huganum. Ég sá ekki, eða öllu heldur vildi ekki sjá að dagurinn í gær er liðinn. Það er alveg sama hvað ég geri í dag - ég breyti ekki því sem gerðist í gær. Ég get bara lært af því - og gert betur. Ég veit heldur ekki hvað mun gerast á morgun. Ég hef líka eytt alveg gríðarlega mikilvægum tíma í mínu lífi í vanlíðan vegna þess ókomna og þess óþekkta. Hörmungarhyggja" er það víst kallað. Að búast alltaf við hinu versta. Gera ekki hluti vegna þess að ég býst við að það klúðrist. Allt klúðrast hjá mér. Ég get ekki gert neitt rétt. Af hverju ætti þetta að ganga upp hjá mér? Ég á það ekki skilið". Hugsanir á borð við þessar héldu mér niðri. Ég tók enga sénsa. Vissi" fyrirfram að ekkert myndi ganga upp hjá mér!
En vissi ég það? Nei. Auðvitað ekki. Í staðinn fyrir að taka sénsinn, gera það sem ég gæti til að lifa lífinu lifandi, þá gerði ég allt sem ég gat til að vera áfram á botninum. Fann mér ótrúlegustu leiðir til að refsa sjálfri mér fyrir hvað ég væri glötuð. Gerði alls konar óskynsamlega hluti. Kom ekki alltaf vel fram við aðra. Í eigin fórnarlambs þokumistri" voru margir dagar fullir af gremju, sjálfselsku, stjórnleysi, biturleika, ósanngirni, ósannsögli. Enginn mátti vita hvað ég var að ganga í gegnum. Ég hefði getað gert svo margt skynsamlegt. En ég hef líka ákveðið að fyrirgefa sjálfri mér þessi ár. Það þjónar engum tilgangi að sitja hér í dag og velta mér upp úr því sem ég hefði getað gert einhverntímann. Því dagurinn í gær er liðinn. Alveg sama hvað ég geri í dag - þá er gærdagurinn liðinn. Það sem ég get gert í dag er að endurtaka ekki alla þessa vanlíðan. Ég get horft fram á veginn, horft á daginn í dag. Get gert mitt allra besta til að dagurinn í dag verði minn besti dagur :)
Hvað ætlar ÞÚ að gera í dag svo dagurinn ÞINN verði góður?
Með ást og kærleika
Berglind
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.3.2010 | 12:15
Viltu breyta um lífsstíl? Viltu vera með í Rósunum?
Ertu ein af þeim sem er búin að reyna "allt" til að laga mataræðið, stunda reglulega hreyfingu og bæta sjálfsmynd þína?
Viltu breyta hugarfarinu? Sættast við sjálfa þig? Líða vel með sjálfa þig?
Taka einn dag í einu, setja þér skynsamleg markmið?
Viltu koma í hóp með frábærum konum sem allar eru að glíma meira og minna við þetta sama og þú? Konurnar í hópnum eru misjafnar en allar eiga þær það sameiginlegt að vilja líða betur, ná tökum á líkamsþyngd, mataræði, hreyfingu, sættast við sjálfar sig og bæta eigin sjálfsmynd.
Þetta er hópur sem tekur skynsamlega á sínum málum með breyttu hugarfari.
Það er pláss fyrir fleiri Rósir :)
Ef þú hefur áhuga, ekki hika við að hafa samband og fá frekari upplýsingar e.berglind@simnet.is
Lúv,
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2010 | 15:08
Mánudagur, jákvæðni, bros og gott líf!
Ég ætla ekki að skrifa langt bréf að þessu sinni.......
Langar bara til að minna ykkur á að hugsa vel og fallega til ykkar sjálfra og um ykkur sjálfar. Þið eruð einstakar perlur og þið þurfið að fá að glansa og njóta ykkar.
Lífið er ákaflega mikilvægt og það er frábært að vera á lífi. Standa frammi fyrir því að geta valið fyrir sig sjálfa, valið það besta mögulega fyrir eigið líf. Lífið er val, endalaust val. Við veljum fyrir okkur sjálfar það sem er best fyrir okkur. Við vitum oftast upp á hár hvað er best fyrir okkur og hvað við þurfum að gera til að okkur líði vel. GERUM ÞAÐ. Eyðum lífinu í dásemd og hamingju.
Það er hægt og það er - vitið þið - algjör snilld!
Eftir því sem okkur líður betur með okkur sjálfar, þeim mun betur erum við í stakk búnar til að takast á við það sem hver dagur ber í skauti sér. Við eigum betri möguleika á því að sýna væntumþykju og ást, hugsa um aðra og gefa af okkur. Það eru margir í okkar lífi sem þurfa á okkur að halda því við erum svo æðislegar!
Við erum hér í þessari tilvist - allar fallegar og yndislegar, hver með sínu nefi. Dásamlegt þegar maður kemst á þann stað í lífinu að njóta þess.
Upp með brosið, upp með jákvæðnina, upp með lífið, upp með tilveruna, upp með okkur sjálfar!!!
Vertu besti vinur þinn!
Með ást og virðingu
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.3.2010 | 16:22
Horft fram á veginn
Í dag er mánudagur, enn einn mánudagurinn. Á mánudögum freistast maður oft til að vera bjartsýnni en aðra daga. Á mánudögum eru oft teknar stórar ákvarðanir.
Ég hef verið með ritstíflu undanfarnar vikur. Ekki dottið neitt í hug, ekki getað hugsað neitt. Ég var í alvörunni farin að hugleiða það hvort ég væri með öllum mjalla, hvort ég væri nú dottin niður eina ferðina enn. Nennti engu, hafði engan metnað, langaði ekki til að gera neitt, fannst allt vera einhvernveginn óþarfi. Svona hugsanir drógu mig svo lengra niður.
En lægðir hafa tilhneygingu til að taka enda. Það er sem betur fer oftast þannig. Ég er búin að eyða stórum hluta ævi minnar í lægð, í þunglyndi, í alls konar deyfð og depurð. Tími sem kemur aldrei aftur, tími sem ég hef í rauninni eytt neðanjarðar. Ég kann allar mögulegar og ómögulegar aðferðir til þess að halda mér í lægð. Það var mín tilhneyging, að vera bara í lægð. Kunni það svo vel. Mikið einfaldara að draga bara fyrir, leggjast undir sæng og vola frekar en að drífa mig út, ganga, anda að mér fersku lofti og brosa framan í heimin og framan í sjálfa mig. Það getur verið ákaflega erfitt að rífa sig upp úr lægð og oft auðveldara að gefa öðrum ráð í þeim efnum en að fara eftir þeim sjálfur.
Ég er búin að læra mjög margt síðustu misserin um það hvernig má breyta neikvæðum hugsunum í jákvæðar. Ég er búin að reyna það sjálf hvað máttur hugans er gríðarlega mikill. Ég hef lært að rökræða hugsanir mínar við sjálfa mig og komast að skynsamlegri lausn. Lausn sem færir mig aftur upp á yfirborð jarðar, upp úr svörtu holunni þangað sem sólin skín og lífið brosir. Ég hef lært að í lífinu eru ekki vandamál heldur lausnir. Í stað þess að einblína á erfiðleikana sem upp á koma, þá er árangursríkara að einblína á hvað hægt er að gera til að létta erfiðleikana og gera lífið einfaldara og betra.
Það er ótrúlegt hvað hægt er að breyta eigin viðhorfi og líðan bara með því að yfirfæra neikvætt yfir í jákvætt. Nánast sama hvað það er. Ég sagði eitt sinn við lækninn minn, ég er algjör djöfulsins aumingi og lúser. Hann vildi nú ekki kaupa það og spurði hvernig ég hefði komist að þeirri niðurstöðu. Ég hafði engin skynsamleg rök fyrir því, ég sagði bara að ég vissi mæta vel að ég væri aumingi. Gæti ekki neitt, skyldi ekki neitt, væri ekki neitt og svo framvegis. Nefndu mér dæmi sagði þá læknirinn. Ég er ógeðslega feit og ljót og get ekki haft stjórn á lífi mínu. Algjör aumingi. Læknirinn horfði bara á mig og sagði svo ósköp rólega hvað myndirðu segja við vinkonu þína ef hún kæmi til þín og segði svona um sjálfa sig?. Í huganum vissi ég alveg hvað ég myndi segja og hvað ég myndi gera. Ég myndi umvefja vinkonu mína örmum mínum, hugga hana og segja henni hvað hún væri æðisleg. Hún væri enginn aumingi. Hún ætti í erfiðleikum í lífinu sínu og hún ætti það svo sannarlega skilið að fara að líða betur. Ég myndi segja henni að ég myndi gera nánast hvað sem er til að hjálpa henni að líða betur. Og þetta sagði ég við lækninn. Af hverju heldurðu að þú sért einhver undantekning frá svona staðreyndum? Af hverju gildir eitthvað annað um þig heldur en vinkonu þína? Af hverju ert þú aumingi í svona aðstæðum en ekki hún? var ég þá spurð. Við þessu átti ég engin svör. Ég átti að minnsta kosti engin skynsamleg svör. Mitt eina svar var Af því bara. Það er svoleiðis hjá mér! Ég er ekkert eins og vinkona mín. Hún á miklu betra skilið heldur en ég! Ég var í öngstræti og átti bara barnalega þrjóskuleg svör. Svör sem sýndu eingöngu fram á að ég var komin í sjálfheldu með afstöðu mína gagnvart sjálfri mér og átti ekki aðra leið færa en að hlusta á það sem læknirinn hafði að segja. Af hverju væri ég eitthvað minna verðug umhyggju og aðstoð en vinkonan?
Þegar ég fór að skoða sjálfa mig og líf mitt sá ég að auðvitað var ég enginn aumingi. Ég var í rauninni bara hundveik. Feit og ljót! Hvaða bull er þetta?! Hvaða máli skiptir það þótt nokkur aukakíló hafi vafið sig utan um mig? Ljót? Hvað kemur það málinu við? Þetta snýst ekki um útlit eða innræti, gjörðir eða athafnir. Þetta snýst um viðhorf og snýst um hugarfar. Að ná sáttum við sjálfan sig fyrst og fremst. Ég er eins og ég er. Það er enginn annar eins og ég. Ég er á lífi í þessum heimi. Er á lífi núna. Ég á börn sem ég elska meira en allt annað og fyrir mig og fyrir þau vil ég breyta hugarfarinu. Breyta neikvæðum viðhorfum mínum gagnvart sjálfri mér og gera þau jákvæð, til að geta lifað lífinu lifandi.
Í dag er staðan mín allt önnur en ég hef tilhneygingu til að detta niður í lægð. Það er allt í lagi. Það er bara hluti af mér. En ég er búin að læra að þess á milli er ég glöð og kát. Jákvæð og orkumikil. En það sem ég þarf alltaf að minna mig á og má aldrei gleyma, það eru leiðirnar sem ég þarf að fara til að hafa líf mitt gott. Ég þarf að hafa fyrir þessu og ég þarf að sættast við þá staðreynd. Það er fullt af fólki til sem þarf ekkert að hafa fyrir því að líða vel og vera jákvæð og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Ég hins vegar þarf að hafa fyrir því.
Bestu leiðirnar sem ég kann er að hafa nóg fyrir stafni og vera virk. Hafa í bakhöndinni eitthvað skemmtilegt sem ég get gripið til. Eitthvað sem dreifir huganum. Til að breyta hugarfari og bæta lífið þarf að vinna fyrir því. Vakna á morgnana og taka afstöðu og velja hvernig ég vilji hafa daginn. Vil ég brosa? Vil ég vera jákvæð? Já, að sjálfsögðu vil ég það. Mér líður langbest þannig. Ég þarf að borða reglulega, hollt og gott. Þegar líf mitt er á því róli líður mér langbest. Ég þarf að sofa nóg. Ég þarf að gera hluti sem mér finnst gaman að gera. Þarf að hreyfa mig. Og það sem er best er að þessar aðferðir duga fyrir alla.
Hvers vegna ætti ég ekki að gera það sem veitir mér vellíðan og gefur mér orku, gleði og jákvæðni? Ég þarf að taka lyf á hverjum degi við mínum sjúkdómum og ég geri það með glöðu geði. Finnst sjálfsagt mál að gera það sem ég þarf til að halda sjúkdómunum niðri, þótt það kosti pilluát og aukaverkanir. En sjúkdómarnir eru bara einn partur af mér og ekkert mál að taka pillur til að halda einkennunum niðri. En af hverju skyldi ég ekki alltaf borða reglulega, gera skemmtilega og uppbyggilega hluti, sofa nóg, hlúa að sjálfri mér? Er það ekki alveg jafn nauðsynlegt og að taka lífsnauðsynleg lyf við sjúkdómum? Og þar kem ég aftur að viðhorfi og hugsunum.
Það sem við hugsum skiptir megin máli. Hugarfarið okkar. Við hugsum skrilljón hugsanir á dag. Allskonar hugsanir. Um okkur sjálf, vinnuna, börnin, tilfinningar, makann, fjármál, áhugamál og svo mætti lengi telja. Yfirleitt vitum við upp á hár hvað er best fyrir okkur sjálf, við bara förum ekki alltaf eftir því. Um leið og við gerum hluti sem við ætluðum ekki að gera eða eru öðruvísi en við vorum búin að ákveða fer hugsanaferli í gang. Hugsanaferli sem oftar en ekki brýst út á neikvæðan hátt gagnvart okkur sjálfum. Ég kýs að kalla þetta hugsanaferli sjálfsniðurrif. Hugsanir á borð við af hverju klúðra ég öllu? Af hverju get ég aldrei verið almennileg? Af hverju þetta og af hverju hitt. Allt neikvætt í eigin garð! Að standa kyrr í niðurrifsstarfsemi gagnvart sjálfum sér. Þetta niðurrif, þessi neikvæðni leiðir af sér neikvæðar tilfinningar, vanlíðan, oftar en ekki höfuðverk eða magaverk, stress, þreytu og vonleysi. Ef ég hugsa þetta skýrt þá sé ég að líklega myndi mér aldrei detta í hug að dæma aðra jafn ákaft og ég hef dæmt sjálfa mig. Ég mátti ekki gera neitt rangt, mátti ekki bara alls ekki gera mistök eða neitt slíkt. Ég var aðframkomin af fullkomnunaráráttu.
Það er hugarfarið sem við getum stjórnað. Við erum í brúnni og við ráðum sjálfar. Hugarfarið er það sem knýr okkur áfram til mikilla verka. Það krefst mikillar vinnu í byrjun, en það er með ólíkindum hvað sú vinna skilar okkur mikilli gleði og mikilli ánægju á endanum.
Stöndum með okkur sjálfum. Gerum það sem við getum til að lífið okkar sé eins og við viljum hafa það.
Það gerir það enginn fyrir okkur, við gerum það sjálfar!
Munið góða spakmælið: "Það hefur enginn þurft að leiða þig í freistni, þangað hefurðu gengið ein og óstudd!" Þessi setning á vel við ákaflega margt í okkar lífi. Freistni getum við svo skilgreint á margan hátt. Hún þarf svo sannarlega ekki eingöngu að eiga við matvæli. Við föllum í freistni mörgum sinnum á dag. Leggjast í sófann í staðinn fyrir að fara út að ganga eða í ræktina, setjast fyrir framan sjónvarpið og horfa á eitthvað tilgangslaust í staðinn fyrir að hringja í vinkonu, fá okkur eitthvað að borða sem við ætluðum okkur ekki að borða.
Munið mig svo um samviskubit - þau eru yfirleitt ekki af hinu góða. Við erum snillingar í því að fá samviskubit yfir öllu og engu, sérstaklega ef við tökum okkur sjálfar framyfir aðra. Það að burðast með samviskubit er algjör óþarfi - þetta er vond tilfinning og mikið niðurrif.
Ég get látið mér líða vel, ég kann aðferðirnar. Áhrifaríkasta aðferðin er að snúa neikvæðum hugsunum yfir í jákvæðar. Það er með ólíkindum hvað jákvætt og opið hugarfar er dásamlega gott. Það er svo frelsandi. Okkur eru allir vegir færir, við getum gert það sem við viljum. Það sem við þurfum að hafa í huga erum við sjálfar. Eigið sjálf. Það veltur allt á því hvaða viðhorf við veljum okkur og hvernig við ákveðum að lifa.
Deginum í gær get ég ekki breytt, hann er fortíð, hann er búinn og farinn. Ég get lært af honum og tileinkað mér með skynsemi og þakklæti það sem miður fór til að geta gert betur. Ég get litið á allt það góða sem gerðist og nýtt mér það sem lærdóm til að halda áfram að gera vel. Morgundagurinn er framtíð, óráðin gáta sem ég get ekki séð hvernig verður og get því ekki ákveðið hvernig verður.
En það sem gerist í dag er nútíð. Ég get ráðið því. Ég get haft áhrif á það sem ég geri í dag, það sem ég geri núna. Það ætla ég að gera. Ég lifi fyrir daginn í dag og geri mitt allra besta til að dagurinn í dag verði besti dagurinn minn.
Ást og friður
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Elísa Berglind Sigurjónsdóttir
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Ágúst 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Maí 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
Tenglar
Mínir tenglar
- Mecca Spa
- Frábært blogg í baráttu við átröskun
- Stúdíó Sóleyjar
- Yoga með Maggý Dásamlegt yoga, Meðgöngu og mömmu yoga.
- Fit - Pilates á Íslandi Frábært æfingaprógramm
- Ragga Nagli Frábær síða full af fróðleik og góðum pistlum
- Umfjöllun um Átröskun hjá Sölva
- Overeaters Anonymous
- Greysheet Anonymous
- Hug-mynd, Hugur/líkami/sál
- Cafe Sigrún
- Góð heilsuræktarhugleiðing
- Hvað er í matnum
- Upplýsingasíða um fæðuofnæmi
- Heimilis uppskriftir
- Heilsubankinn
- MFM Miðstöðin
- Geðhjálp
- Kærleiksvefur Júlla
- Átaksblogg
- Elín Helga Egilsdóttir
Spurt er
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar