Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010
29.1.2010 | 09:51
Einn dag í einu - eitt skref í einu
Ég setti þennan pistil saman í haust, en finnst rétt að rifja hann upp núna. Ég bætti aðeins við og það er margt fólgið í þessum orðum sem vert er að gefa góðan gaum að.
Mér finnst svo mikið um þann hugsanagang að við viljum fá allt helst í gær. Nú í janúar, eftir jólastjórnleysi í mat, drykk og peningaeyðslu þá er einhver æðubunugangur í hugum margra. Fullt af fólki er að púla og þræla í ræktinni, búið að setja allskonar matvæli á bannlista og kvíði vegna fjármála er að draga úr fólki máttinn smám saman.
En stoppum örlítið. Við sem höfum átt í óeðlilegu ástarsambandi við matvæli og líkamsrækt einhverntíma í lífinu þekkjum mjög vel þetta janúar vesen. Reyndar er ekki bara janúarvesen. Það er haustvesen. Páskavesen. Sumarvesen. Alltáriðumkringvesen". Allt sett á bannlista, ræktin tekin með trompi, fjármálin endurskoðuð. En gerðist eitthvað af viti - raunverulega af viti? Nei því miður. Ástandið versnaði bara. Vegna þess að það átti að gera allt í einu. Massa þetta med det samme". Klippa út úr mataræðinu þessa og hina fæðutegundina, hitaeiningainntaka í algjöru lágmarki, ræktin sett inn í prógrammið nánast upp á hvern dag. Dæmt til að mistakast.
Við þurfum að fara rólega af stað, einn dag í einu, eitt skref í einu. Þegar við erum í rugli, mataræðið í rugli, hreyfing í rugli, þá þýðir voðalega lítið að ætla að massa það en, to, tre. Þetta lækningaferli" er huglægt. Ég myndi segja að allt í kringum mataræði, hreyfingu og lífsstíl sé fyrst og fremst huglægt og sé fyrst og fremst byggt á skynsemi. Með réttu og jákvæðu hugarfari má flytja fjöll.
Guð gefðu mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.
Oft finnst okkur eins og við þurfum að gera allt NÚNA. Við viljum koma okkur í form, breyta mataræðinu, sofa betur, líða betur, ná betri yfirsýn yfir verkefni, skipuleggja okkur betur - og þetta þarf helst allt að gerast í gær og árangur að nást STRAX. Við viljum koma öllum hlutum í lífi okkar í lag í einu.
Við höfum örugglega jafn oft fundið fyrir því að hugsunarháttur sem þessi er heftandi, hann lamar okkur og dregur í raun úr okkur mátt. Við getum ekki gert allt í einu. Einhver sagði að góðir hlutir gerðust hægt.
Best er að byrja smátt og taka lítil skref í einu. Setja niður hverju maður vill ná tökum á og raða upp í lítil skref. Ef við skrifum niður markmiðin þá verða þau raunveruleg. Setja sér lítil markmið í einu, því þau eru raunhæfari og við eigum auðveldara með að ná þeim og viðhalda þeim. Með því að ná settum markmiðum aukum við jafnframt sjálfstraust okkar og þá er auðveldara að setja sér ný marmið. Svona náum við smám saman árangri.
Ef til vill er gott að hugsa sér að byrja á því að koma reglulegri hreyfingu inn í prógrammið. Fyrir suma er of mikið að fara inn í líkamsræktarstöð og byrja þar á fullu í prógrammi. Þá má minnka skrefin enn meira og byrja á stuttum göngutúr um nágrennið. Það þarf ekki að vera nema í 10 mínútur. Einsetja sér að labba í 10 mínútur á dag, klukkan þetta og fara alltaf. Þetta er mjög góð leið til að byrja, þetta hvetur mann áfram til dáða og þegar maður er tilbúinn til getur maður bætt við 10 mínútum.
"Eitt dæmi um svona lítil skref kemur frá Fjólu Þorsteins, en hún lagði til dæmis upp tillögu að ferð á Esjuna. Tók hún sem dæmi manneskju sem hefur lengi langað til að klífa Esjuna, en aldrei haft sig í það. Viðkomandi er kannski alltaf að draga sjálfa sig niður í hvert skipti sem hún keyrir framhjá - fyrir það eitt að geta ekki klifið fjallið. Hún nefndi að sniðugt væri að byrja kannski á því að fara á bílaplanið hjá Esjunni. Skref eitt. Næst gæti maður kannski keyrt á bílaplanið, farið út úr bílnum og skoðað sig um. Skref tvö. Þar næst gæti maður kannski endurtekið leikinn og labbað eitthvað eftir göngustígnum. Skref þrjú. Svona er hægt að taka á hlutunum, koll af kolli, þangað til við höfum sigrað."
Næst getur maður svo tekið á mataræðinu - ásamt því að halda áfram að hreyfa sig. Lang gáfulegast er í raun að borða 4-6 sinnum yfir daginn og minna í einu. Fá sér bara einu sinni á diskinn. Borða velflestan mat. Hollt og gott og sneiða til dæmis hjá sykri og sætindum, gosi og mikilli fitu. Breytingar á mataræði er ekki fórn heldur tækifæri sem við höfum til að bæta heilsu okkar, bæði andlega og líkamlega. Með góðu, hollu, fjölbreyttu og trefjaríku fæði aukum við líkur okkar á að lifa löngu og heilbrigðu lífi.
Fyrirfram ákveðnir matseðlar eru ágætis lausn fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með mataræði sitt. Vera búin að skrifa niður daginn áður hvað skal borða næsta dag. Fylgja því svo eftir, 4-6 máltíðir. Takið eftir að þegar talað erum máltíðir getur verið átt við ½ epli og hrökkbrauð.
Við ráðum ferðinni sjálf og enginn gerir þetta fyrir okkur. Ekkert gerist nema við gerum það sjálf :) Hugsa jákvætt og brosa til heimsins. Það skiptir engu máli hvort við erum feitar, mjóar, stórar, litlar, ungar eða gamlar, bakveikar, hnéveikar, með gigt eða hvað annað. Allt sem við þurfum er að fá góðar leiðbeiningar og einarðan vilja til að fara eftir þeim. Við getum gert ótrúlega margt ef við hugsum markmiðin okkar rétt :)
Að koma sjálfum sér í gott form, andlega og líkamlega er ekki refsing. Þetta á að vera gaman, heilbrigt, skemmtilegt, uppbyggjandi og umfram allt hvetjandi. Þegar við ætlum að breyta um lífsstíl og koma okkur sjálfum í rútínu og gott lag þarf að skoða og líta á þessar breytingar sem jákvæðar. Horfa á þessar breytingar með jákvæðu hugarfari og aðlaga þær að okkur, hver og einn einstaklingur setur markmið fyrir sig því þannig og aðeins þannig geta breytingarnar orðið varanlegar. Við verðum að gera þetta fyrir okkur sjálf. Það er enginn annar sem gerir það fyrir okkur. Um leið og við áttum okkur á því verður leiðin auðveldari og greiðari.
Ekki er alltaf gott að einblína á vigtun og mælingar. Mjög margar konur og sjálfsagt karlmenn einnig hafa fallið endalaust í þá gryfju að vera alltaf að vigta sig og mæla. Ef árangurinn samkvæmt vigtinni er ekki eins og við viljum þá brotnum við niður og reynum enn meira og getum auðveldlega skapað vondan vítahring. Allra besti mælikvarðinn er spegillinn og hugarfar okkar sjálfra. Þetta er svo skrýtið stjórntæki á tilfinningar. Ef við höfum staðið okkur rosalega vel eina vikuna og mætum svo í vigtun og vigtin hefur ekki haggast frá síðustu vigtun þá dettum við algjörlega niður. Tilfinningarnar hrapa og upplifunin er hræðileg. Hvað gerði ég rangt? Af hverju er þetta svona? Það er alveg sama hvað ég borða hollt eða hreyfi mig oft og mikið það haggast ekki vigtin!" Og við ákveðum að taka því rólega næstu vikuna. Mætum í vigtun og nálin hefur sigið. Vá, tilfinningalegur rússíbani. Sko!Alveg sama. Til hvers að vera að eyða púðri og tíma í að hamast í ræktinni þegar maður léttist við að gera ekki neitt nema borða hamborgara!" En staðreyndin er sú að í fyrri vikunni höfðu kannski fokið sentimetrar! Við kannski skoðuðum það ekkert. Eina sem var hugsað um var vigtin. Þarna er dæmi um það hvernig hugarfarið getur hlaupið með mann í vitleysu.
"Ef mér finnst ég feit, sjá aðrir mig feita, ef mér finnst ég falleg, finnst öðrum það einnig, ef ég sé glaða konu í speglinum, sjá aðrir mig glaða......!"
Þetta er mjög flott viðhorf og við ættum að taka þetta viðhorf upp hjá okkur. Þetta veltur svo ofboðslega mikið á okkar eigin viðhorfum, sjálfstrausti, eigin viðurkenningu og hugarfari. Það skiptir að sjálfsögðu heilsufarslega miklu máli að bera ekki alltof mörg aukakíló, en þegar öllu er á botninn hvolft þá skiptir ekki máli hvort við erum kílóum yfir eða undir - ef sjálfstraust okkar og eigin vitund og væntumþykja er ekki í lagi - þá breytir engu um það hvernig við lítum út.
Andleg næring er jafn nauðsynleg og líkamleg. Við þurfum að tileinka okkur þá góðu aðferð að nota jákvæðar hugsanir í stað neikvæðra. Það krefst æfingar, en er ákaflega árangursríkt ef það er notað.
Hugsum fallega um okkur sjálfar og til okkar sjálfra.
Uppskrift að góðu lífi:
Leiðbeiningar um notkun:
1. Taktu "LÍKAMSRÆKT" inn 3x - 5x í viku, 15mín - 1 klst í senn, allt árið.
2. Nærðu líkamann á hollum og næringarríkum mat.
3. Sjáðu til þess að þú fáir nægan svefn ( 8 klst á sólarhring).
4. Stundaðu HEILSURÆKT alla daga.
"AUKAVERKANIR"
1. Minnkar líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.
2. Minnkar líkur á að þróa fullorðinssykursýki. ( Teg.2)
3. Lækkar of háan blóðþrýsting.
4. Minnkar líkur á að fá of háan blóðþrýsting.
5. Hjálpar okkur að hafa hemil á vigtinni.
6. Bætir geð og léttir lund.
7. Minnkar líkur á þunglyndi og kvíða.
8. Hjálpar okkur að styrkja bein, vöðva og liðamót.
9. Eykur afkastagetu hjarta- og æðakerfis.
10. Bætir líkamsvitund okkar.
11. Kemur í veg fyrir eða losar um vöðvabólgu.
12. Kemur í veg fyrir bakvandamál.
Leggðu reglulega inná "Heilsubankabókina " ( taktu helst aldrei út ).
Er þetta uppskrift sem hentar þér ?
Fólk með mikið sjálfstraust er ekki rekið áfram af því að verða meira en annað fólk; það leitar ekki eftir því að bera sig saman við einhvern staðal. Gleði þess felst í því að vera það sjálft, en ekki í því að vera betri eða meiri en einhver annar. Hamingjusöm manneskja er ekki manneskja í tilteknum kringumstæðum heldur manneskja með tiltekin viðhorf til lífsins.
Hamingjan er ekki í fortíðinni, hamingjan er ekki í framtíðinni, hamingjan er í hjarta þínu núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.1.2010 | 15:53
Væntumþykja og kærleikur - að þiggja og gefa sjálfum sér
Í dag er 26. janúar. Tíminn svoleiðis flýgur áfram. Í morgun þegar ég leit á dagatalið og sá hvað langt var liðið á janúar fékk ég snöggan hnút í magann. Fyrsta hugsun mín var: Er lífið að fljúga frá mér? Er ég að ná að gera úr lífinu mínu það sem ég vil? Er ég að gera það besta fyrir mig? Gæti ég haft lífið mitt öðruvísi, jafnvel betra? Er ég að gefa af mér alla þá væntumþykju og allan þann kærleika sem býr innra með mér? Er ég að þiggja alla þá væntumþykju og kærleika sem mér er sýnd, eða kasta ég því frá mér? Sýni ég sjálfri mér nógu mikla væntumþykju, umhyggju og kærleika?".
Oft hef ég velt fyrir mér og vandræðast með sjálfsmynd, sjálfstraust og sjálfsöryggi. Jákvæðni og rökhugsanir í því samhengi er stundum vanmetið. Það er ekki sjálfgefið að öllum líði vel og þurfi ekki að hafa fyrir neinu. Að lifa er list, að vera stoltur og standa með bakið beint, öruggur og ánægður með sjálfan sig án hroka er líka list. En Guðdómlega dásamlegt, bæði fyrir mann sjálfan og fyrir þá sem umgangast mann!
Þegar sjálfsmynd okkar er ekki góð erum við gjarnan í þeim pakka að gagnrýna okkur sjálfar fyrir nánast hvað eina sem við gerum. Það er alveg sama hvað það er, alltaf skulum við geta fundið okkur einhverja leið til að gagnrýna okkur og gjörðir okkar í stað þess að hrósa og þykja vænt um okkur.
Það er svo merkilegt að ein jákvæð hugsun getur hrakið margar neikvæðar hugsanir á brott. Ein jákvæð hugsun getur lyft vonum okkar aðeins upp. Oft teljum við okkur trú um að atvik og aðstæður í kringum okkur hafi áhrif á og stjórni því hvernig okkur líður. Við getum hins vegar haft áhrif á líðan okkar með því að breyta hugsun okkar, hegðun eða líkamlegu ástandi. Hugleiðið það aðeins.
Oft festumst við í vítahring okkar eigin hugsana. Við kannski liggjum í rúminu andvaka og þá oft leita á okkur ósjálfráðar hugsanir. Neikvæðar ósjálfráðar hugsanir sem skila þeim eina tilgangi að rífa okkur meira niður. Hugsanir eins og Ég er algjör aumingi að hafa ekki getað gert betur í dag. Ég sem ætlaði að gera þetta og þetta og þetta". Út frá þessum neikvæðu hugsunum kemur ákveðin líðan. Við verðum daprar, ef til vill kvíðnar, reiðar við sjálfar okkur, finnum fyrir tilfinningalegum dofa og verðum jafnvel hræddar. Af líðaninni sprettur svo hegðun. Það getur ef til vill verið þess eðlis að við liggjum áfram í rúminu því andlega líðanin er ömurleg. Þegar okkur líður illa andlega þá kallar sú vanlíðan oft á líkamleg viðbrögð. Í svona tilfellum gætum við farið að finna fyrir höfuðverk, magaverk, yfirþyrmandi þreytu, spennu, vöðvabólgu og fleiru. Í kjölfarið upplifum við tilveru okkar ömurlega, vonlausa og jafnvel tilgangslausa.
En hvað getum við gert í staðinn? Fyrst þurfum við að átta okkur á því að allri líðan fylgir einhver hugsun - ekki öfugt. Öll bregðumst við mismunandi við aðstæðum og atvikum og túlkun fólks á þeim er ekki eins. Við þurfum að hlúa að okkur sjálfum og skoða hvernig við bregðumst við aðstæðum og atvikum.
Hvernig tökum við á móti gagnrýni? Er sama hver gagnrýnir?
Ef við fáum athugasemd frá yfirmanni eða kennara. Hvernig bregðumst við við? Segjum við við okkur sjálfar: Aldrei get ég gert neitt rétt! Ég er ömurleg í þessu! Ég á aldrei eftir að ná tökum á þessu og best fyrir mig bara að hætta!" Hver eru raunveruleg skilaboð þess sem gagnrýndi? Var viðkomandi að kannski að segja óbeint það sem við sjálfar sögðum við okkur? Uuuuu nei! Nefnilega ekki! Ef við hugsum þetta rökrétt og jákvætt þá getum við snúið dæminu á þennan veg fyrir okkur sjálfar og spurt okkur: Geturðu aldrei gert neitt rétt?" Jú, þú ert alla daga, allan daginn að gera fullt, fullt af hlutum rétt. Hins vegar ertu manneskja og þess vegna gerirðu mistök eins og allir aðrir. Ég er ömurleg í þessu!" Nei, það ertu ekki. Þótt við fáum ábendingar í starfi eða námi eða hvar sem er þá eru það í 99% tilfella tækifæri sem við getum nýtt okkur til að gera betur. Það dásamlega við gagnrýni er að maður getur lært af henni og nýtt sér það til framdráttar til að verða betri. Ég á aldrei eftir að ná tökum á þessu og best fyrir mig bara að hætta!" Ef það er raunverulega satt og rétt þá er það eina skynsamlega í stöðunni hvort sem er að hætta til að finna sér eitthvað annað að gera. Við höfum allar hæfileika á hinum ýmsu sviðum og stundum hittist svo á að við dettum ekki niður á það sem við höfum hæfileika til að gera. Þá rísum við einfaldlega upp á afturlappirnar, viðurkennum að aðrir eru betri á þessu sviði - því sannleikurinn er sá að þú ert einfaldlega betri á einhverju öðru sviði. Og hvaða máli skiptir þá hvort þú getir akkúrat þetta? Þú getur hitt!
Auðvitað er ekki sama hvernig er gagnrýnt - hvernig gagnrýnum við aðra sjálfar? Öllum getur sárnað en við erum sérstaklega viðkvæmar fyrir gagnrýni og áreiti þegar við erum eitthvað daprar. Hins vegar þá getum við lært að taka gagnrýni án þess að sárna. Með tímanum getum við lært að stýra því hvaða viðbrögð við sýnum því við getum það - en getum ekki stýrt öðrum. En hvernig gagnrýnum við aðra? Erum við tillitssamar þegar við gagnrýnum eða skvettum við fram gagnrýni á þann hátt að hún særi? Gefum okkur smá tíma til að hugsa um það hvernig við gagnrýnum aðra.
Hvernig tökum við á móti hrósi? Er sama hver hrósar?
Ef einhver kæmi til þín og segði: Vá, varstu að fá þér nýja peysu? Rosalega klæðir hún þig vel!". Þekkjum við ekki viðbrögð okkar: Huhh, þessi gamla drusla! Ég er búin að eiga hana í mörg ár og fann hana loksins samanvöðlaða aftast í fataskápnum. Átti ekkert annað til að fara í!". En sannleikurinn er kannski sá að þetta ER ný peysa og innst inni erum við ánægðar með hana, við erum bara ekki ánægðar með sjálfar okkur og kunnum því ekki að taka á móti hrósinu.
Margar í þessum sporum, sem ekki geta tekið við hrósi rangtúlka hrósið og snúa því sér í óhag. Iss, hún segir þetta bara til að vera kurteis við mig! Ég sé það alveg á henni að henni finnst ég ógeðslega asnaleg í þessari peysu. Af hverju getur hún ekki bara þagað í staðinn fyrir að vera að hæða mig!". En hugsum þetta aðeins. Er þetta í alvörunni rökrétt? Þegar við lítum yfir þetta svona þá sjáum við alveg svarið. Auðvitað er þetta ekki rökrétt, en það er samt okkar að snúa þessu við. Við gætum alveg eins sagt: Takk fyrir hrósið! Já, ég keypti peysuna í gær, mér finnst hún flott og mér líður vel í henni!". Standið stoltar með bakið beint og takið ánægðar og jákvæðar við hrósinu.
Það er alltaf gott að fá hrós og í raun ætti ekki að skipta máli hver það er sem hrósar. Fólk er misjafnt eins og það er margt og ekki allir sem hafa það í sér að hrósa öðrum. Aftur kem ég að þessum punkti: Við getum aldrei stýrt viðbrögðum annarra eða því hvað aðrir gera, við getum hins vegar stýrt því hvað við sjálfar gerum og hvernig við sjálfar tökumst á við hlutina.
Hvaða áhrif hefur þetta á okkur?
Við ráðum því :) Það er það yndislega við lífið. Og þar kem ég aftur inn á hugsanir mínar á þessum Drottins degi. Er lífið mitt eins og ég vil hafa það? Svarið við þeirri spurningu er kannski ekki beinlínis einfalt, en það er kannski einhvern veginn svona:
Ég á yndislegan kærasta, yndisleg börn og fósturbörn, var að fá mér dásamlegan hund og ég elska þau öll svo ofsalega mikið. Ég er í náminu sem ég ætlaði mér alltaf í, ég er að kenna þá leikfimi sem ég hef alltaf viljað, er að vinna hugmyndavinnu með yndislegum stelpum fyrir ákveðið málefni sem er mér mjög hugleikið, ég er stöðugt að vinna í sjálfri mér, lifi fyrir einn dag í einu, reyni að koma fram við aðra eins og ég vil að komið sé fram við mig, er heil í því sem ég tek mér fyrir hendur og geri það eins vel og ég get, ber mikla umhyggju fyrir fólki og dýrum og einfaldlega vil öllu og öllum vel. Ég reyni á hverjum degi að hugsa jákvætt, hugsa jákvætt um sjálfa mig og gefa mér þannig tækifæri. En auðvitað á ég mína niður daga eins og aðrir, en þeim fer stöðugt fækkandi og það er dásamlegt!
Niðurstaðan: Berglind - haltu áfram á þessari braut - þú ert að gera góða hluti og þarft ekki að hafa áhyggjur á meðan þú ert eins meðvituð og þú ert núna!
Ást og friður
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.1.2010 | 13:12
Þriðjudagur til þakklætis, til sælu og til gleði
Góðan daginn elskurnar mínar :)
Í dag ætla ég að staldra aðeins við.
Ég ætla að taka upp töfrasprotann minn og ég ætla að dreifa yfir ykkur töfradufti. Í þessu töfradufti eru allar bestu óskir mínar ykkur til handa. Aðeins allt það besta fyrir ykkur því þið eigið það skilið. Þið eigið skilið að umvefja ykkur sjálfar sælu og gleði og vera þakklátar ykkur sjálfum fyrir að gefa ykkur tækifæri á því að að næra ykkur, bæði á sál og líkama.
Dragið ykkur Orð dagsins - Gullkorn Berglindar á morgnana og farið yfir þau og túlkið fyrir daginn. Þetta eru orð sem sett eru saman fyrir ykkur. Gefið ykkur sjálfum gaum og veljið hvernig þið ætlið að hefja hvern dag. Veljið ykkur hugarfar dagsins og viðhorf.
Líkamsþjálfun 3x í viku er í raun lágmark og þyrfti að komast í vikuskipulagið hjá öllum. Eins og ég hef oft sagt ykkur þá er besti vinur þunglyndis og depurðar hreyfingarleysi. Með hreyfingarleysi er hægt að draga úr svo ótal mörgu jákvæðu.
Þegar við stundum líkamsþjálfun og reynum á okkur, framleiðir líkaminn endorfín, sem er oft kallað gleðihormón, eða vellíðunarhormón". Stundum erum við algjörir snillingar í að finna okkur alls kyns afsakanir fyrir því að mæta ekki í ræktina. Hver hefur ekki sagt: Æ, ég er svo þreytt eitthvað". Æ, ég er með höfuðverk". Æ, ég er með verk í fætinum, í fingrinum, þarf að fara heim og elda, þarf að fara heim og lesa, þarf að gera þetta, þarf að gera hitt".
Okkur finnst oft mjög margt annað vera mikilvægara en þessi bráðnauðsynlegi þáttur í okkar eigin heilbrigði, heilsu og vellíðan - mjög margt annað sem við tökum fram yfir okkur sjálfar.
Hér fyrir neðan er linkur á smá myndbandsbrot, (tekur um 1 mínútu). Endilega horfið á þetta. Þarna er spurningin, hvaða afsökun hefur þú fyrir að mæta ekki í ræktina? :)
http://www.youtube.com/watch?v=obdd31Q9PqA
Allar breytingar á okkar lífi og lífsmynstri eru erfiðar. Það er erfitt að taka af skarið og setja inn margar litlar máltíðir í stað 2ja til 3ja stórra áður. Þetta er átak og krefst vilja og löngunar. Allt sem þarf er löngun til að gera það og vilji til að framkvæma. Við vorum ekki aðeins einn dag að breyta lífsmynstrinu til hins verra. Við verðum ekki heldur einn dag að breyta því til baka. Um leið og við áttum okkur á því, þá mun okkur ganga betur. Þessi leið sem við höfum valið okkur að fara, hún tekur tíma en hún er greiðfær, hún er opin, hún er auðrötuð og hún er góð. Það er gott að feta sig eftir þessari braut. En eins og ég segi, það tekur meira en einn dag að feta þessa braut og verður gert í smáum skrefum. Raunhæfum skrefum.
Matur er ekki hættuleg vara. Við þurfum að læra að umgangast matinn af nærgætni. Við þurfum líka að læra að það er sumt sem hæfir okkur ekki sem hæfir öðrum. Rétt eins og sumir þurfa að taka lyf til dags daglega til að halda sjúkdómum í skefjum, þá gætum við þurft að sneiða hjá einhverjum fæðutegundum til að halda okkar lífi og líkamsþyngd í skefjum. Það er engin skömm að því. Það er aftur á móti reisn. Að bera með reisn þá sjálfsögðu lífsnautn sem fylgir því að gera það sem við getum til að okkur líði sem best.
Hvað þurfum við að gera til að okkur líði sem best? Jú, rækta sálina og rækta líkamann. Það er ekkert mjög flókið reikningsdæmi - er það?
Verum þakklátar. Við höfum svo margt til að vera þakklátar fyrir og svo margt til að gleðjast yfir.
Munið að:
- skrifa hjá ykkur í matardagbók að minnsta kosti einn dag í viku
- hugsa jákvætt og fallega um ykkur sjálfar oft á dag
- taka lítil skref og einn dag í einu
- rækta sál og líkama
- þakka fyrir hvern dag
- lesa gullkorn Berglindar
Í lokin:
Vil ég senda stóra bæn, stórt knús, stóra væntumþykju og kærleika til Öddu sem nú liggur heima með brotinn ökkla. Elsku yndislega Adda okkar. Það er hræðilegt að vita af þér heima að drepast úr verkjum! Farðu eins vel með þig og þú mögulega getur svo þú komist sem fyrst á ról. Haltu huganum jákvæðum og jafn yndislegum og þú átt vanda til. Ekki gefa upp á bátinn allan þann árangur sem þú varst búin að ná :) Knús á þig ljúfan.
Þangað til næst,
Ást og friður
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.1.2010 | 13:02
Hugleiðing í einlægni
Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.
Ég vil lifa einn dag í einu og njóta hverrar stundar meðan hún líður og sætta mig við að vegurinn til friðar og sátta sé varðaður erfiðleikum. Ég vil taka þessum heimi eins og hann er, ekki eins og ég vildi að hann væri. Ég veit að ég mun eiga dimma daga og ég veit að ég mun eiga bjarta daga í lífinu. En með því að kjósa að taka eitt skref í einu, lifa einn dag í einu, velja fyrir mig, velja það sem ég veit að er best fyrir mig þá kemst ég vel af. Nægjusemi og hófsemi er af hinu góða. Ég veit að ég þarf að gera mér grein fyrir því að engar tvær manneskjur eru eins. Ég er dásamleg eins og ég er, rétt eins og allir hinir. Hjálpa mér að standa með sjálfri mér, standa fast á mínu, hugsa jákvæðar hugsanir um sjálfa mig í staðinn fyrir neikvæðar. Hvettu mig áfram á lífsleið minni. Þessari leið sem ég ætla að fara og lifa lifandi. Lifa eins vel og ég get.
Allt sem ég á í hjartanu er miklu meira virði en það sem ég gæti eignast af veraldlegum gæðum. Ég vil hugsa jákvætt og hugsa með þakklæti í huga. Ein jákvæð hugsun getur hrakið hundrað neikvæðar hugsanir á brott. Ég veit að ég get gert margt gott og látið gott af mér leiða. Það geri ég best með því að hugsa fyrst og fremst vel um sjálfa mig.
Mig langar að vinna verk mitt á degi hverjum. Mig langar að geta gert það sem ég þarf að gera á hverjum degi. En ef hinar myrku stundir örvæntingarinnar yfirþyrma mig þá vil ég ekki gleyma að ég á huggun og ég veit hvað ég þarf að gera til að mér líði betur. Ég vil minnast allra góðra stunda. Allra bjartra tíma. Bernskubreka, unglingaþors, ungmennagalsa, foreldrahlutverks. Allir hljóta að eiga bjartar stundir sem hægt er að minnast. Hvernig sem viðrar, hvaða dagur sem er, á hvaða aldri sem er. Ég vil geta minnst þeirra góðu stunda sem ég hef átt. Ég vil geta í sátt tekið með mér úr fortíðinni það sem er gott og skilið hitt eftir. Ég veit að fortíðin er fortíð. Dagurinn í gær er liðinn, hann get ég aldrei fengið aftur. Alveg sama hvað ég vil það heitt, eða vil það alls ekki. Hann er liðinn. Ég get gert hann upp, get fyrirgefið, get sæst við hann og svo látið kyrrt liggja og haldið áfram með daginn í dag. Dagurinn á morgun er ekki byrjaður. Ég veit ekki hvað verður á morgun. Alveg sama hvað ég vil það heitt. Ég veit það ekki. En í dag, núna.......ég veit hvað er núna. Og núna ætla ég að gera allt sem ég get til að mér líði vel. Ég ætla að lifa lífinu lifandi.
Ég vil muna að fátækt og ríkidæmi eru oft andlegs eðlis. Allt sem ég geri get ég stýrt sjálf. Hugarfari mínu get ég stýrt. Ef ég er fátæk get ég stýrt því hvernig ég hugsa um það og tek á því andlega. Það sama er með ríkidæmi. Það er hægt að láta hvorutveggja hlaupa með sig í vitleysu. Ég ætla að muna að ég get bara stjórnað mínum eigin gjörðum og orðum, mínum eigin framkvæmdum og látbragði. Aldrei annarra. Það er alveg sama hvað ég geri eða segi, ég get aldrei borið ábyrgð á því hvernig aðrir bregðast við.
Ég vona innilega að mér takist að vera sátt við hugsanir mínar og gjörðir og að þær verði þess eðlis að ég sé sátt við sjálfa mig þó að heimurinn líti ekki við mér. Ég vona að ég muni alltaf vera meðvituð um stjörnurnar og himininn, fjöllin og árnar, fallega landslagið og gróðurinn. Ég vona að augu mín muni alltaf verða björt og opin svo þau geti séð hvað heimurinn getur verið fallegur. Ég vona að mér takist að lifa án þess að dæma aðra því þá dæmi ég ekki sjálfa mig. Ég óska þess að í lífinu fylgi mér frekar fáir og traustir góðir vinir sem taka mér fyrir mig, eins og ég er, en ekki margir miður góðir vinir. Mér skal takast að vera þakklát fyrir lífið, jákvæð til sjálfrar mín og lífsins og nýta hverja stund sem ég hef til að gera það sem ég get til að lifa lífinu lifandi. Ég leita hamingjunnar og veit að ég mun finna hana.
Með einlægni og auðmýkt.
Ég sjálf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2010 | 11:36
Stúdíó Sóleyjar í Mecca Spa
Endilega skoðið nýju heimasíðu Sóleyjar Jóhanns www.studiosoleyjar.is
Það ættu allir að finna sér einhverja hreyfingu við hæfi hjá Stúdíói Sóleyjar :) Mecca Spa er frábær líkamsræktarstöð, dásamlegt umhverfi, snilldar kennarar.
Komið og prófið :)
Kveðja
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Elísa Berglind Sigurjónsdóttir
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Ágúst 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Maí 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
Tenglar
Mínir tenglar
- Mecca Spa
- Frábært blogg í baráttu við átröskun
- Stúdíó Sóleyjar
- Yoga með Maggý Dásamlegt yoga, Meðgöngu og mömmu yoga.
- Fit - Pilates á Íslandi Frábært æfingaprógramm
- Ragga Nagli Frábær síða full af fróðleik og góðum pistlum
- Umfjöllun um Átröskun hjá Sölva
- Overeaters Anonymous
- Greysheet Anonymous
- Hug-mynd, Hugur/líkami/sál
- Cafe Sigrún
- Góð heilsuræktarhugleiðing
- Hvað er í matnum
- Upplýsingasíða um fæðuofnæmi
- Heimilis uppskriftir
- Heilsubankinn
- MFM Miðstöðin
- Geðhjálp
- Kærleiksvefur Júlla
- Átaksblogg
- Elín Helga Egilsdóttir
Spurt er
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar