21.7.2011 | 11:16
Dagurinn í dag
Dagurinn í dag
Þegar ég vaknaði í morgun var fyrsta hugsun mín - ég ætla að gera allt sem ég mögulega get í dag til að gera líf mitt og líðan eins yndislegt og mér er frekast unnt!
Það var áður en ég leit út um gluggann og sá að sólin skín á heiðskírum himni, en það hefur vantað ansi mikið upp á sólskin og hlýtt veður hér á Egilsstöðum í sumar. Um leið og ég sá að sólin skein í heiði og varla bærist strá í vindi (af því að það er enginn vindur) þá fylltist ég bjartsýni og kærleika.
Skrýtið hvernig veðrið hefur áhrif á líðanina. Undanfarna daga hefur verið þungbúið, gengið á með rigningu og þoka legið yfir öllu. Hálfkalt. Hitastigið hefur ekki náð tveggja stafa tölu dögum saman. Það dregur orkuna frá manni og maður verður næstum því dapur.
Ég verð mikið vör við áhrif veðursins á skap og líðan þegar ég heimsæki ömmu mína á sjúkrahúsið. Það er yndislegt að sjá allt gamla fólkið, gleðina og brosin - þegar sólin skín :) en að sama skapi er merkilegt hvernig rigning og þoka virðist draga niður bæði líkamlega og andlega heilsu þeirra. Í byrjun síðustu viku var veðrið hér æðislegt í 3 daga í röð. Gamla fólkið fór í gönguferðir, gat sest út á pall, þau fengu jafnvel ís. Ég fór meira að segja með ömmu mína í kaupstað". Allt var létt og skemmtilegt. Um leið og sólin hvarf bak við skýjaþykkildið á himninum og rigningarsuddinn helltist yfir þá strax var eins og drægi úr orkunni og þrekinu.
Við þurfum sólina og hlýjuna, þurfum þessa birtu og orkuna sem fylgir sólinni. Ég er búin að upplifa það mjög sterkt undanfarnar vikur hér í sveitinni". Það verður ofboðslega hlýtt hér en á móti verður svo afar kalt.
Á svona degi eins og í dag finnst mér ég geta gert allt. Mig langar til að gera allt. Hjartað er fullt af kærleika til lífsins og til fólksins sem stendur mér næst. Ég hlakka til að takast á við daginn í dag. Hlakka til að fara á sjúkrahúsið til ömmu og félaga, hlakka til að labba út í hádeginu og fá mér að borða. Það er líka svo skemmtilegt að í dag er ferjudagur" sem þýðir að Norræna leggur að bryggju á Seyðisfirði, ferðamennirnir keyra yfir Fjarðarheiðina hingað á Héraðið og nú iðar Egilsstaðabær af lífi. Ferðamenn af öllum þjóðernum á öllum mögulegum og ómögulegum farartækjum. Þetta er yndislegt :) Það hlýtur að vera mjög sérstakt fyrir ferðamenn að koma hingað í svona veðri, keyra yfir Fjarðarheiðina og upplifa svo útsýnið sem blasir við ofan af heiðinni - fagra Fljótsdalshéraðið eins og það leggur sig.
Þaðan sem ég sit núna á skrifstofunni horfi ég beint yfir að Upplýsingamiðstöðinni. Léttklæddir ferðalangar, fólk með allskonar farangur og myndavélar á maganum. Allir brosandi. Enda ekki hægt - nú eru þeir staddir í nafla alheimsins - á fagra Fljótsdalshéraðinu sem skartar sínu allra fegursta í dag.
Dagurinn í dag lofar góðu. Líka morgundagurinn og hinn og hinn og hinn. Af því að ég er staðráðin í því að láta jákvætt hugarfar leiða mína för. Bjartsýni og jákvæðni verða mínir ferðafélagar og mitt leiðarljós. Það er allt hægt - það sem við þurfum er vilji og löngun. Jafnvel auðmýkt og fúsleiki. Að viðurkenna fyrir sjálfum sér að enginn annar gerir hlutina fyrir mann. Mitt líf verður fullt af jákvæðni og kærleika af því að ég ætla að velja þá leið - fyrir mig.
En ég veit líka að ég get ekki bara verið bjartsýn og jákvæð þegar það er sól úti og hlýtt. Ég þarf að geta verið bjartsýn og jákvæð með hjartað fullt af kærleika sama hvernig viðrar.
Ég þarf að vera í forgangi í mínu lífi. Ég veit að ef ég hugsa ekki um mig sjálfa þá dreg ég úr möguleikanum á því að geta hugsað vel um aðra. Ég á aðeins eina heilsu og ef heilsan klikkar þá skerðast lífsgæði mín og í raun má segja að jafnframt þá muni lífsgæði minna nánustu skerðast líka.
Möguleikarnir á bættum lífsgæðum eru hér og nú. Staðurinn og stundin er núna. Ekki á eftir og ekki á morgun. Núna :)
Hvernig ætlar þú að hafa þinn dag?
Mynd: http://www.east.is/UpplifduAusturland/Baeirogthorp/Skodathettyli/fljotsdalsherad
Um bloggið
Elísa Berglind Sigurjónsdóttir
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Ágúst 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Maí 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
Tenglar
Mínir tenglar
- Mecca Spa
- Frábært blogg í baráttu við átröskun
- Stúdíó Sóleyjar
- Yoga með Maggý Dásamlegt yoga, Meðgöngu og mömmu yoga.
- Fit - Pilates á Íslandi Frábært æfingaprógramm
- Ragga Nagli Frábær síða full af fróðleik og góðum pistlum
- Umfjöllun um Átröskun hjá Sölva
- Overeaters Anonymous
- Greysheet Anonymous
- Hug-mynd, Hugur/líkami/sál
- Cafe Sigrún
- Góð heilsuræktarhugleiðing
- Hvað er í matnum
- Upplýsingasíða um fæðuofnæmi
- Heimilis uppskriftir
- Heilsubankinn
- MFM Miðstöðin
- Geðhjálp
- Kærleiksvefur Júlla
- Átaksblogg
- Elín Helga Egilsdóttir
Spurt er
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.