Minn eigin valkostur

 

Í dag er apríl hálfnaður. Allt á suðupunkti á Íslandi. Landið spýr eldi og brennisteini og pólitíkusar og útrásarvíkingar pota og pikka hver í annan yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Enginn viðurkennir neitt né biðst fyrirgefningar af einlægni. Þó hafa þeir tækifæri til þess núna. Það er þeirra valkostur að gera það ekki.

En hvað með okkur hin? Hverjir eru okkar valkostir í lífinu? Hverjir voru og eru mínir valkostir?

Ég er að verða 39 ára. Fyrir 4 árum hóf ég ferðalag mitt í átt til lausnar frá átröskun og þunglyndi. Frá því ég man eftir mér hef ég verið meira og minna þunglynd og döpur. Ég var orðin mjög virk í átröskun um 18 ára aldur. Svelti mig í tíma og ótíma og hakkaði í mig þess á milli. Óánægð með sjálfa mig. Vildi vera önnur en ég er og reyndi ýmislegt til þess. Um tvítugt fór ég svo að kasta upp og svelta mig þess á milli. Alltaf í átaki. Aldrei ánægð með mig.

Það hefur gengið upp og niður í mínu lífi, alltaf. Ótrúlegustu hlutir hafa komið fyrir. „Been there, done that!" Þegar ég lít til baka finnst mér eins og sagan mín sé frekar kvikmynd eða bók sem ég hef lesið og man eftir. Mynd eða bók sem höfðu djúpstæð áhrif á mig. Í dag, þegar ég er í virkilega góðum bata hugsa ég um fortíð mína með hálfgerðum trega. Mikið ofboðslega var ég hræðilega veik. Í eitt ár sótti ég fundi hjá OA samtökunum. Þar blasti við á hverjum fundi setningin: „Eymd er valkostur". Þúsund sinnum hefur þessi setning ómað í höfðinu á mér. En hvað er eiginlega átt við með þessum orðum?

Ég túlka þessi orð þannig að átt sé við að andlega eymd, hryggð. Að vanlíðan sé valkostur. Við berum ábyrgð á okkur sjálfum, okkar vellíðan, okkar hamingju. „Hver er sinnar gæfu smiður!"

Þegar ég var sem veikust af átröskun var minn valkostur í rauninni eymd. Ég vildi vera í vanlíðan. Kunni það langbest af öllu. „Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur!" Ég skil ekki nákvæmlega hvað þetta þýðir - en ég held að þegar maður er andlega kvalinn, eins og ég hef eytt stærstum hluta minnar ævi í að vera, þá leitar maður frekar í vanlíðan en vellíðan. Það er það sem maður kann. Ég kunni upp á hár að líða illa. Vissi nákvæmlega hvað ég þurfti að gera til að líða betur - ég bara gerði það ekki. Mér fannst ég svo innilega ekki eiga það skilið að líða vel. Ég óskaði sjálfri mér alls ills. Ég hafði ekkert álit á sjálfri mér, sjálfsmatið var í rúst, sjálfstraustið var ekkert. Ég faldi mig ofan í „stóru, svörtu, djúpu holunni" minni í algjörri einangrun minna eigin döpru hugsana og tilfinninga. Mikið ofsalega langaði mig samt upp úr holunni, ég vissi bara ekki hvað beið mín fyrir utan. Þekkti ekki þá tilfinningu að líða vel. Raunverulega líða vel. Vera örugg. Treysta.

Auðvitað voru ekki allar stundir mínar slæmar. Skárra væri það nú. Auðvitað var oft gaman, ég leyfði því bara ekki að endast. Ávítaði sjálfa mig endalaust í huganum. Það voru engin takmörk fyrir því hvað ég gat niðurlægt, skammað, pínt og kvalið sjálfa mig. Út af gjörsamlega öllu. Allt var mér að kenna. Þvílíkur drami. Hugsa sér að ég hafi haft örlög svo margs í höndum mér - allt var mér að kenna! Þvílík rangtúlkun. Ég var alltaf að reyna og reyna og reyna að ná áttum. Reyna að vera eitthvað merkileg. Reyna að vera fullkomin. Mátti ekki gera mistök. Enginn mátti vita af minni átröskun. Og enginn vissi. Ég reyndi að ganga í augun á fólki, vera eins og ég hélt að aðrir vildu að ég væri. Fór langt, langt út fyrir allt sem gat verið ég. Fjarlægðist sjálfa mig og allt sem snéri að sjálfri mér. Á endanum þekkti ég ekki sjálfa mig. Vissi ekki hvar ég var, hvert ég ætlaði að fara eða hvaðan ég kom. Ég æfði yfir mig í ræktinni og var þar öllum stundum. Vann og vann, tók að mér öll verkefni sem mér voru rétt - ég gat ekki sagt nei. Þekkti ekki mín eigin mörk. Fannst að ég hlyti að verða að gera öllum til hæfis þótt ég sjálf sæti algjörlega á hakanum í staðinn. Ég var endalaust að. Hræddist höfnun meira en allt. Alltaf á fullu. Vinna, skóli, ræktin, svelti, ofát, uppköst, grátur. Reyna að þóknast. Reyna að vera almennileg. Hræðileg stanslaus og endalaus vanlíðan.

Mér verður hugsað til allra kvöldanna og allra helganna, jólanna og sumarfríanna þar sem ég lá heima hjá mér, úrvinda eftir „sýndarmennsku" dagsins. Álagið við að fela raunverulega vanlíðan mína var gríðarlegt. Slökkti öll ljós og dró fyrir alla glugga. Sat og starði út í myrkrið og grét og niðurlægði sjálfa mig til skiptis. Fór ekki neitt. Talaði ekki við neinn - ekki nema ég þyrfti. Enginn mátti vita hvað var í gangi.

Aumingja börnin mín. Ég reyndi eins og ég gat að vera þeim góð móðir. Reyndi að veita þeim eins mikla ást og ég gat. Við vorum reyndar mjög flott „team" ég og börnin. Miklir vinir. Enda alltaf saman. Við erum ennþá mjög flott „team". Blessuð börnin mín. Þau eru óendanlega mögnuð. Takamarkalaus er ást mín á þeim og þessar elskur stóðu alltaf með mömmu sinni. Ég lifði fyrir þau. Fyrir þau þurfti ég að vakna á morgnana og fara út úr húsi. Fyrir þau þurfti ég að vinna svo ég gæti gefið þeim að borða og veitt þeim föt og skjól og allt hitt sem börn þurfa.  

Ég var 34 ára gömul þegar ég fór af einhverri alvöru að gera eitthvað í mínum málum. Þá var ég flutt til Reykjavíkur, komin í Háskóla og einhvernveginn átti allt að vera svo gott. Það bara var það ekki. Á árunum 2004 og 2005 náði ég botninum. Ég var í algjöru rugli. Átröskunin tók allan tíma sem ég átti. Ég gat ekkert gert. Ég var þræll átröskunar og eigin vanlíðunar. Fangi þráhyggjunnar. Ég var í fíkn. Held að það sé hægt að útskýra þetta best þannig. Ég vissi ekki hvað snéri upp eða niður í sambandi við sjálfa mig. Var alltaf að fá einhverjar svaka hugmyndir um að mér liði nú betur ef ég gerði þetta og ef ég gerði hitt og ef mér fór að líða aðeins betur þá gerði ég eitthvað til að góða líðanin tæki enda. Ég átti ekkert gott skilið.

Á OA fundum árið 2004 fann ég á endanum nokkur svör. Ég fann þetta dæmalausa stjórnleysi, endalausu sjálfselsku, hvernig ég vildi að aðrir væru gagnvart mér. Ég fann gremjuna, óttann, hömluleysið, meðvirknina. Þarna var fólk sem deildi nákvæmlega sömu tilfinningum og ég. Þeim leið eins og mér. Þótt ég væri tugum kílóa léttari en sumir þá fann ég mig í þeirra frásögnum. Átröskun er geðsjúkdómur. Föst í höfðinu á manni. Líðanin hefur ekkert með kílóafjölda að gera. 10 kílóum léttari, 20 kílóum þyngri. Mér leið alltaf illa og vildi alltaf verða grönn. Ég fór í gegnum 12 sporin hjá OA og það var rosaleg vinna. Ég skrifaði og skrifaði tilfinningar ævi minnar. Í heildina voru listarnir mínir sem ég vann í sporavinnunni um 150 blaðsíður alls. En þrátt fyrir þetta náðu augu mín ekki að ljúkast upp fyrir alvöru. Á endanum datt ég í sama farið aftur - ennþá lengra niður.

Í febrúar 2005 var ég greind með flogaveiki eftir að hafa legið milli heims og helju á Borgarspítalanum. Búin að fara 4 sinnum á tveim mánuðum með sjúkrabíl vegna flogakasta. Ég var ennþá í bullandi átröskun þarna. En viðurkenndi það ekki samt. Gat ekki viðurkennt það. Ég skammaðist mín niður fyrir öll velsæmismörk. Það eina sem komst að hjá mér var að ég vildi verða mjó. Ég hélt að öll mín vandamál myndu leysast bara við það eitt að verða mjó. Allir myndu taka mig í sátt og öllum myndi líka við mig. Ég var farin að ganga ansi hreint langt í þessari viðleitni minni að verða mjó. Þarna á þessum tímapunkti hrundi líf mitt alveg á botninn. Ég varð að hætta í skólanum, mátti ekki keyra í heilt ár og var þjökuð af aukaverkunum lyfjanna sem ég þurfti að taka til að halda flogunum niðri. Á örskömmum tíma fór líðan mín niður í dýpstu svörtu holu sem ég hef kynnst. Átröskunin var gjörsamlega á milljón. Ég þyngdist töluvert af öllum nýju lyfjunum og tilfinningin var algjörlega að bera mig ofurliði. Mig langaði ekki að taka lyfin, en mig langaði heldur ekki að fá flogakast. Ég átti raunverulega ekki mikið eftir. Veit ekki einu sinni á hverju ég keyrði. Ég hélt þó alltaf áfram - einhvernveginn liðu dagarnir. Ég er viss um að ég væri ekki hérna megin móðunnar miklu ef ég hefði ekki haft börnin mín hjá mér. Elsku börnin mín. Þau fengu hrikalegt áfall þegar ég veiktist svona. Flogaveiki. Þau hafa ekki náð sér ennþá. Mamman þeirra, sem alltaf hafði verið þeirra stoð og stytta, vinur og félagi, hraust og sterk, var nú orðin hálfgert grænmeti. Ég gafst upp. Vildi bara að þetta tæki enda. Varð eiginlega nákvæmlega sama um allt - nema börnin mín. Ég vildi ekki kveðja heiminn þeirra vegna. Tilhugsunin um börnin mín hélt í mér lífinu. Hvað yrðu um þau ef mín nyti ekki við?

Og, öll él birtir upp um síðir. Ég fékk tíma hjá geðlækni og fór loksins fyrir alvöru að gera eitthvað í mínu andlega svartnætti. Ég gekk daglega með skrifblokk á mér og var dugleg að skrifa niður það sem ég sá, hugsaði og heyrði. Bæði neikvætt og jákvætt. Hugsanir mínar fóru á blaðið. Gerði alls konar tilfinningalista. Ég ætlaði að fá bata. Mig langaði í líf með börnunum. Fór suma daga hring eftir hring með strætó bara til að geta skrifað. Eftir 11 mánuði á endurhæfingu heima var ákveðið að framlengja endurhæfingartímabilið svo ég gæti nú tekið á öllu sem ég átti til að ná bata og læra að lifa með flogaveikinni. Í 8 mánuði í viðbót, samtals 19 mánuði var ég í endurhæfingu. Og ég nýtti mér svo sannarlega þetta tímabil.

Ég gerði margar breytingar til batnaðar á þessu tímabili til að gera líf mitt og barnanna viðráðanlegt og gott. Félagsþjónustan í Reykjavík veitti mér ómetanlega hjálp. Læknarnir mínir líka. Ég var svo ákveðin í að fara í bata. Ég flutti með börnin og bjó okkur heimili á nýjum stað í Reykjavík. Það var dásamlegt. Í byrjun febrúar 2006 vaknaði ég einn morgun og eitthvað var breytt. Það var eitt ár liðið frá því að ég fékk síðast flogakast. Ég mátti á næstu dögum fara að keyra bílinn minn aftur. Ég fylltist bjartsýni. Í fyrsta sinn á ævinni fann ég hvað mig langaði í bata. Ég mundi eftir orðum heimilislæknis míns fyrir austan þegar ég fór eitt sinn til hans, alveg að niðurlotum komin. Þá sagði hann: „Besti vinur þunglyndis og depurðar er hreyfingarleysi!"

Auðvitað vissi ég að ég þyrfti að hreyfa mig. Ég var bara hrædd við það, vildi ekki lenda aftur í viðstöðulausa vítahringnum sem ég var í áður. Ég hafði ekki hreyft mig í 3 ár. Ég fór á fætur og fann að ég þyrfti að finna mér einhverja hreyfingu. Eftir smástund dreif ég  mig í Baðhúsið til að fara í Pilates. Í 4 mánuði samfleytt fór ég í hádeginu á hverjum einasta virkum degi í Baðhúsið til að hreyfa mig. Það var æðislegt að vera þar. Bara konur og þetta gerði mér ákaflega gott. Ég fór að vinna með matinn, borða reglulega og ákveða fyrirfram hvað ég ætlaði að borða og hversu mikið. Ákvað það helst daginn áður. Borðaði ekki mat sem ég vissi að væri „ofáts" matur. Borðaði á fyrirframákveðnum tímum. Oft varð ég að stilla símann minn á hringingu til að minna mig á að borða reglulega. Þetta var góður tími. En þetta var erfitt. Þegar fór að líða að vori fann ég að ég var komin í þörf fyrir að fara að gera eitthvað annað en að vera heima. Ég sótti um vinnu sem ég svo fékk og byrjaði á vinnumarkaðnum aftur eftir 19 mánuði í endurhæfingu.

Vinnan já. Mér líkaði vel framan af. Á endanum fann ég samt að ég var ekki nærri nógu sterk til að takast á við það andrúmsloft sem ríkti á vinnustaðnum. Mér fór að hraka aftur andlega. Á endanum var svo komið að ég stóð varla undir sjálfri mér. Ég fékk veikindavottorð og hætti í vinnunni. Við tók endurhæfing og enn eina ferðina var ég komin í uppbyggingu. En það var öðruvísi í þetta sinn. Ég var miklu sterkari en áður. Komin rosalega langt í bata þrátt fyrir allt. Það var birta í kringum mig og mér fannst ég ekki aumingi fyrir að hafa hætt í vinnunni. Ég fann bara fyrir létti og löngun til að verða heil.

Nú er liðið ár. Ég dreif mig í Háskólanám og mér gengur vel. Ég þarf þó stundum að hafa fyrir lífinu. Þarf að hafa fyrir því að gera suma hluti. Þarf að læra að setja mér mörk - draga línurnar. Ég hef ekki mikla einbeitingu og finn að ég er ekki eins skörp og ég var. Líklega eru lyfin eitthvað að vesenast þar. En ég er á góðri braut. Ég leiðbeini dásamlegum hópi kvenna í leikfimi og reyni að passa mataræðið. Þessi hópur er að gera kraftaverk fyrir mig.

Átröskunin er samt aldrei langt undan. Hugsanir í þráhyggju og hömluleysi koma oft upp í hugann. Ég hef náð upp þyngd í vetur, sem er gott. En það að þyngjast kallar á gömul viðbrögð. Ég reyni eins og ég get að berjast á móti. Gömlu tilfinningarnar um „stóru, svörtu, djúpu holuna" mína sækja stundum á mig. Þá langar mig ekki að vera góð við sjálfa mig. Þá dett ég í svartnætti. En það stendur aldrei lengi. Munurinn á því núna og áður er sá að ég hef lært að einangra mikið til ósjálfráðu neikvæðu hugsanirnar sem endalaust herja á mig og set jákvæðar í staðinn.

Lífið mitt er dásamlegt í dag og ég er ekki að grínast þegar ég segi að það er til líf eftir átröskun.

Meira að segja gott líf :)

Með friði og kærleika

Berglind


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið þakka ég þér fyrir þessa færslu.

Ég þurfti svo mikið að fá svona sögu einmitt í dag. Suma daga er svo erfitt að eiga við átröskunarpúkana og þennan óútskýranlega haus okkar. 

Takk fyrir að deila, takk fyrir einlægnina. Gangi þér áfram svona vel.

Sirrý Sif Sigurlaugardóttir (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 14:11

2 identicon

Elsku fallega góða systir mín. Ef maður aðeins hefði vitað...

Svandís (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 16:14

3 identicon

Takk fyrir :)

Já, hausinn okkar er svo sannarlega óútskýranlegur. Átröskun er ekkert grín, það vitum við :)

Hef fylgst með þér á Facebook og þú ert að gera mjög góða hluti.

Lúv,

Berglind

Berglind (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Elísa Berglind Sigurjónsdóttir

Höfundur

Rósirnar heilsurækt, breytt og betri líðan
Rósirnar heilsurækt, breytt og betri líðan
Berglind er leiðbeinandi hjá Rósunum heilsurækt, Hátúni 12, Reykjavík. Hægt er að koma á tvö námskeið hjá Rósirnar heilsurækt: Breytt og betri líðan (BBL)og Zumba/lates. BBL er lokað námskeið. Þetta er hópur kvenna sem vill breyta og bæta sína líðan og setja sig sjálfar í fyrsta sæti. Zumba/lates er byggt upp þannig að fyrstu 30-35 mínúturnar er Zumba og styrktaræfingar úr fit-pilates prógramminu teknar í restina. Frábær námskeið! Leitaðu upplýsinga! e.berglind@simnet.is
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Spurt er

Hefur þú prófað fit pilates?

Nýjustu myndir

  • auglýsing 10092011
  • konulíkami IIII
  • konulíkami III
  •  MG 4782(20x25)
  • MECCA II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband