27.7.2010 | 13:47
Heilsuræktarveturinn 2010-2011
Eruð þið ekki örugglega að koma ykkur í gírinn fyrir komandi heilsuræktar vetur?
Tilbúnar til að lyfta ykkur upp andlega og líkamlega?
Sendið mér endilega tölvupóst e.berglind@simnet.is eða hringið í mig ef þið viljið spyrja mig eða vera með okkur í Mecca Spa í vetur.
Það verða hádegistímar (fit-pilates mix) og svo verður að sjálfsögðu rósaprógrammið sem aldrei klikkar - og nú verður bætt einum sundtíma inn í!
Ást og kærleikur
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2010 | 17:48
DRÖG AÐ VETRARPRÓGRAMMI 2010 - 2011
ELÍSA BERGLIND - RÓSIR OG FLEIRA 2010-2011
Fit-Pilates fyrir mömmur og kríli 2x í viku
Fit -Pilates fyrir mömmur án barna 2x í viku (eftir að mömmurnar eru búnar að vera á námskeiðum með litlu krílin - fyrirhugað að bjóða barnapössun)
Kallapúl 2x í viku
Rósir - seinni partur 4x í viku
Rósir - morguntímar 3x í viku
Rósir ungar stelpur 16 25 ára 3x í viku
GRAFARHOLT 2010-2011
Unglingar 3x í viku (BootCamp - þrek)
Konur fjölbreytni og skemmtilegt 3x í viku
Kallapúl 2x í viku
Endilega tjáið ykkur - hvernig lýst ykkur á?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2010 | 14:40
Í dag er fallegur dagur
Elsku fallegu Rósir, fallegu dömur, sem saman mynda fallegan Rósavönd
Ég rita hér orð mánudagsins :) en langt er nú orðið síðan ég hef lagt inn orð fyrir hæstvirtan mánudag!
Í dag er fallegur dagur. Yndislega fallegur og frábær mánudagur hálfnaður. Svo óskaplega dásamlega unaðslegt veður í dag. (Allavega sýnist mér það svona úr stofuglugganum mínum, þar sem ég sit við borðstofuborðið og er að sperrast við að læra!) Er ekki kominn sumarhugur í ykkur? Útilegupælingar? Ji, ég hlakka til að fara í útilegu í sumar! Það er fátt eins notalegt og að vera í útilegu í guðsgrænniómengaðriíslenskrináttúru" (man einhver hver sagði þessi orð í gæsalöppunum?)
Mig langar að heyra frá ykkur kæru Rósirnar mínar :) Hvernig gengur ykkur með heilsuátakið ykkar? Hafið þið farið í gönguferðir þá daga sem ekki er leikfimi? Taka stigann í staðinn fyrir lyftuna? Leggja aðeins í burtu frá útidyrum? Reyna að sneiða hjá sætindum? Auka grænmetið og ávextina?
Hvernig gengur með matardagbækurnar?
Leiðið þið hugann annað slagið að lykilorðunum okkar 4, þolinmæði, jákvæðni, brosi og meðvitund? Höfðuð þið heilsuátakið okkar í huganum um helgina?
Eruð þið ekki rosalega spenntar fyrir því að koma í leikfimina í kvöld?
Ég hlakka ofsalega mikið til að takast á við komandi viku. Það er margt spennandi framundan. Við eigum til dæmis eftir að hittast nokkrum sinnum í vikunni og það verður æðislegt. Það er svo frábært að vera með ykkur.
Já, og það er fundur á miðvikudaginn :)
Mig langar að minna ykkur á að regluleg hreyfing er ákaflega mikilvæg fyrir líf okkar og heilsu.
- 1. Hjartað dælir betur
- 2. Góða kólesterólið vex
- 3. Líkamlegur kraftur eykst
- 4. Líkaminn verður sterkari og liðugari
- 5. Kynorkan styrkist (júhú - cool)
- 6. Lífslíkur aukast
- 7. Líkaminn verður úthaldsbetri og frískari
- 8. Líkur á beinbrotum minnka
- 9. Andlega hliðin verður sterkari og stressálag minnkar
- 10. Andlegur aldur lækkar
- 11. Líkaminn brennir meiru og líkamsfita minnkar
- 12. Svefninn batnar
Það er mikið atriði að setja hreyfingu og hollt mataræði inn sem jafn sjálfsagðan hluta af daglegu lífi og að bursta tennurnar. Ekki fara af stað með látum og ætla þér allt of mikið. Settu þér raunhæf markmið og auktu lífsgæði þín með mátulegri hreyfingu auk hollara mataræðis. Gerðu hreyfingu og hollt mataræði að skemmtilegum útgangspunkti fyrir líf þitt á hverjum degi.
Aðal markmið okkar með líkamsrækt og reglulegri hreyfingu er að auka almenna vellíðan - bæði andlega og líkamlega. Hreyfingarleysi er besti vinur þunglyndis og depurðar!
Innst inni í okkur öllum er ákveðin mynd - sjálfsmynd. Þessi mynd er af okkur sjálfum - af þér og því hvernig þú sérð sjálfa þig. Sumir þekkja þessa mynd ekki nógu vel. Allt sem hefur verið sagt við þig og þú lent í um ævina, bæði jákvætt og neikvætt hefur áhrif á þessa mynd.
Hver einstaklingur hefur sín eigin persónueinkenni - jafnvel eineggja tvíburar. Þetta þýðir að fólk hagar sér mismunandi við sömu aðstæður. Hver einstaklingur á sér sínar eigin hugsanir, tilfinningar, vonir, drauma og hæfileika og hver einstaklingur á sér einnig sínar eigin óttatilfinningar, veikleika og vandamál. Þetta á ekki bara við um þig, heldur líka alla hina.
Hversu oft hefur þú horft á aðra og óskað þess að þú hefðir sömu hæfileika eða getu og hinir? Hversu oft hefur þér fundist einhver annar vera fullkominn en ekki þú? Mundu að enginn er fullkominn.
Hættu að bera þig saman við aðra - það er betra að þekkja sjálfan sig og vera sáttur við sjálfan sig.
Það hefur enginn lofað því að lífið verði auðvelt. Aftur á móti get é lofað því að við munum oft í lífinu rekast á hindranir og brekkur. Við þurfum að takast á við álag og erfiðleika sem á vegi okkar verða. Lifðu ekki í vandamálinu - hugsaðu í lausnum. Lífið er stúfullt af lausnum - finndu þær og lífið mun verða auðveldara.
En hvað geturðu gert til að styrkja sjálfsmynd þína?
- Vertu sátt við sjálfa þig og lífið - ekki bera þig saman við aðra. Appelsína og banani verða ALDREI eins, alveg sama hvað þau leggja sig fram við að reyna!
- Það er betra að takast á við erfiðleika á uppbyggjandi hátt. Ef þú lendir í rifrildum eða þrætum eða einhver segir eitthvað neikvætt um þig eða við þig, þá skaltu ekki trúa öllu sem er sagt. Gerðu annarra orð og skoðanir ekki að þínum eigin. Þessar skoðanir og þessi orð þurfa ekki að vera réttar þó svo að einhver annar hafi sagt þau!
- Þekktu styrkleika þína og veikleika; það geta ekki allir verið góðir í öllu. Hlúðu að styrkleikum þínum. Viðurkenndu veikleika þína og fáðu hjálp ef þú þarft. Það er engin skömm að því - það er styrkur!
- Gerðu raunhæfar kröfur til sjálfrar þín. Þó að bróðir þinn, systir eða vinkona hafi alltaf fengið 10 í öllu er ekki þar með sagt að þú þurfir þess líka. Þínir hæfileikar liggja án efa bara á öðrum sviðum. Njóttu þess!
Að lokum við ég segja við ykkur að bros er eitt það dýrmætasta sem við eigum. Það er með ólíkindum hvað bros getur gert mikið fyrir okkur. Bara það að hitta glaðlyndan vin getur breytt ömurlegum degi fyrir okkur í yndislega dásamlegan dag. Við getum ákveðið með brosi að gera heiminn ýmist að fangelsi eða höll. Bros getur breytt hugarfari okkar. Með brosi kemur jákvæðni. Það er ekki hægt að brosa og vera fúll :) Brosið getur létt þungar byrðar. Það verður allt einhvernveginn einfaldara og fallegra með brosi!
Bros er eins og sólskin - það dreifist út um allt andlit - svo fallegt. Ef þú færir bros og þá jafnframt sólskin inn í líf annarra, þá áttu ákaflega erfitt með að halda því frá þínu eigin lífi :)
Brostu framan í aðra, brostu framan í sjálfa þig - þú verður ekki fyrir vonbrigðum - þú færð heilan helling af brosum til baka :)
Ég hlakka til að sjá ykkur í leikfiminni kl. 18:00 - klukkan sex - í dag.
Knús á ykkur dásamlegu Rósir.
Gangi ykkur vel
Lúv,
Berglind
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2010 | 14:01
Mömmu Fit Pilates
Það er orðið fullt á Mömmu Fit Pilates námskeiðið sem hefst 19. maí n.k. í Baðhúsinu og þökkum við fyrir hreint frábærar viðtökur.
Þetta verður frábært námskeið með frábærum mömmum og yndislegum börnum.
Við reiknum með að fara af stað aftur í haust. Endilega fylgist VEL með :)
Lúv,
Berglind og Tanía
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2010 | 10:21
Mömmu Fit Pilates
Það eru að týnast inn skráningarnar á námskeiðið og aðeins nokkur pláss laus.
Ef þið hafið áhuga á að vera með, endilega skráið ykkur :) e.berglind@simnet.is
Námskeiðið byrjar 19. maí kl. 10:30 og stendur til 24. júní :)
Frábær leið til að koma sér í gang eftir barnsburð :)
Lúv,
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2010 | 13:01
Mömmu Fit Pilates
Námskeiðið er hugsað þannig að mömmurnar geti komið með börnin með sér og haft þau í salnum hjá sér á meðan þær eru að gera æfingar. Æfingarnar eru margar hverjar þannig gerðar að hægt er að vera með börnin í fanginu á meðan æfingarnar eru iðkaðar. Fit-Pilates tónlistin er ákaflega mjúk, falleg og þægileg.
Fit-Pilates þjálfar djúpvöðva líkamans, gefur langa og fallega vöðva, sléttan kvið, grönn læri, sterkt bak, betri líkamsstöðu og aukinn liðleika. Fit-Pilates samanstendur af skemmtilegum og styrkjandi æfingum sem móta flottar línur líkamans. Enginn hamagangur og læti en það er vel tekið á. Æfingar á boltum veita þægilegt vöðva og líffæranudd. Fit-Pilates er æfingakerfi sem þú heldur áfram að stunda heima hjá þér og heldur þér þannig í formi. Fit-Pilates er leikfimi fyrir þá sem vilja sjá línurnar verða flottari.
Mömmu Fit-Pilates námskeiðið byrjar Miðvikudaginn 19. maí kl. 10:30 í Baðhúsinu Brautarholti og lýkur 24. júní, 5 vikur, 15 Fit-Pilates tímar og allt að 6 mömmumorgnar.
Tímar verða á Mánudögum, Miðvikudögum og Fimmtudögum kl. 10:30 í Freyjusal á 1. hæð. Haldið verður utan um hópinn á jákvæðan og uppbyggilegan hátt með því að senda pistla og fróðleik, upplýsingar um mataræði og hreyfingu, uppskriftir og gullkorn, hvatningu og greinar og hvað eina sem upp í hugann kemur. Samskipti utan Pilates tíma og mömmumorgna munu fara fram í gegnum tölvupóstinn.
Mömmumorgnarnir verða auglýstir betur síðar. Á mömmumorgnum munu þátttakendur geta rætt saman um það sem upp hefur komið með börnin eða þær sjálfar, um tilfinningar, okkur sjálfar, um gleði, um uppgötvanir, um bleyjuskipti, um brjóstagjöf, um svefninn. Allt milli himins og jarðar. Gefa ráð, þiggja ráð. Oft upplifa nýbakaðar mæður sig einangraðar og finna fyrir depurð. Mörgum mæðrum finnst þetta óeðlilegt ástand og fara jafnvel enn lengra niður fyrir vikið. Ég hef mikinn áhuga á því að vera með uppbyggjandi tíma þar sem konurnar geta talað saman, stutt hverja aðra og deilt því sem þær eru að ganga í gegnum.
Námskeiðsgjald er kr. 15.000. Innifalið er aðgangur að búningsklefum, gufubaði og heitum potti.
Við erum tvær sem skiptum námskeiðinu á milli okkar. Annars vegar undirrituð og hinsvegar Tanía. Tanía hefur séð um nokkur Mömmu Fit Pilates námskeið, hún hefur verið með Meðgöngu Fit Pilates og hún er einnig búin með námskeiðið Fullfrísk.
Athugið að leita eftir grænu ljósi hjá lækni eða ljósmóður áður en þið farið af stað að hreyfa ykkur, ef þið eruð tiltölulega nýbúnar að eiga.
Endilega bendið þeim á sem þið teljið að gætu nýtt sér námskeiðið :)
Frábært námskeið fyrir nýjar mömmur og krílin þeirra :)
Lúv,
Berglind
Bloggar | Breytt 6.5.2010 kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2010 | 10:18
Fallegu rósirnar mínar :)
Í dag er mánudagur, ný vika framundan með öllum sínum spennandi tækifærum, gleði, hamingju, hindrunum og öllu öðru sem lífið hefur upp á að bjóða.
Í dag ætlum við að byrja í Heilsuátaki Rósanna.
Leggst það ekki vel í ykkur?
Ég geng út frá því að við höfum okkar samskipti í gegnum tölvupóst en ekki í gegnum facebook :) Ég mun senda gögn í tölvupóstinum :)
Í kvöld fáið þið smá möppu með lesefni og leiðbeinandi matseðli fyrir eina viku. Matseðillinn miðast við 3 aðalmáltíðir dagsins: Morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Við tökum svo inn 1 - 2 millibita eftir þörfum.
Við erum að fara að vinna í að passa okkar skammtastærðir, fá okkur einu sinni á diskinn, vinna á hugarfari okkar.
Mig langar til að biðja ykkur um að hugleiða lykilorðin okkar fjögur í dag. Lykilorðin okkar fyrir Heilsuátakið eru:
Þolinmæði, Jákvæðni, Bros og meðvitund.
Vera þolinmóðar - þetta gerist ekki á einum degi. Við munum eiga einhver skref afturábak, en það er allt í lagi því við vitum að við getum svo vel risið upp aftur og haldið áfram.
Vera jákvæðar - allt sem við gerum byggist upp á jákvæðu hugarfari. Það er með ólíkindum hvað líf okkar verður auðveldara við það eitt að snúa neikvæðu upp í jákvætt.
Vera brosandi - bros smitar. Ef við brosum til annarra þá er næstum því bókað að við fáum bros til baka. Ef við brosum framan í eigin spegilmynd um leið og við lítum í spegil að morgni, þá getum við haft áhrif á það hvernig dagurinn okkar verður.
Vera meðvitaðar - það að vera meðvitaðar um það sem við erum að takast á við getur skipt sköpum fyrir þann árangur sem við munum ná. Að hafa hugann við markmiðið skiptir miklu máli.
Hvað segið þið, komnar í gírinn?
Lúv,
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2010 | 09:22
Heilsuátak Rósanna
Mjög margar konur tala um að þær séu hundleiðar á því að það gangi ekkert í vinnunni með þær sjálfar. Mataræðið er alls ekki eins og þær vilja, þær ná engri stjórn á málunum, þær hreyfa sig þegar þær komast í leikfimistíma annars ekki neitt, sjálfsmyndin er í rugli og já, bara almenn óánægja með sjálfar sig.
Besti vinur þunglyndis og depurðar er hreyfingarleysi.
Það sem mig langar til að gera er að við tökum okkur saman og byrjum á fullu þann 3. maí, í átaki að breyttum lífsstíl. HEILSUÁTAK RÓSANNA.
Við setjum markið hátt, en það er samt raunhæft. Hver kona vinnur þetta fyrir sig, á sínum forsendum, en við erum þó allar saman. Engin gerir það sem hún ekki vill. Við gætum til dæmis ákveðið að kvöldi hvað við borðum næsta dag og hversu mikið. Bara hafa þetta einfalt. Borða á fyrirfram ákveðnum tímum og ákveða hvað við ætlum að borða mikið. Einu sinni á diskinn. Gerum jafnvel matseðil fyrir vikuna. Borðum 3 aðalmáltíðir yfir daginn: morgunmat, hádegismat og kvöldmat og borðum svo 1 2 millibita, sem geta verið ½ - 1 ávöxtur, tómatur, melónusneið, nokkur vínber og slíkt.
Drögum úr neyslu kolvetna seinni part dags og aukum neyslu á próteinum og trefjum. Sukkdagur er einu sinni í viku ef við viljum.
Þetta á ekki að vera erfitt. Auðvitað er það smá átak að koma sér af stað! Það er ekki auðvelt að losna út úr vítahring óreglulegs mataræðis og hreyfingarleysis. Þetta er spurning um að við stöndum saman, ein fyrir alla og allar fyrir eina og að sjálfsögðu hver fyrir sig. Hvetjum hver aðra áfram. Verum duglegar að mæta í leikfimi, labba stiga í staðinn fyrir að taka lyftu, leggja bílnum fjær verslunardyrum en við erum vanar svo við þurfum að labba smá spöl. Fara í gönguferðir þá daga sem ekki er leikfimi.
Fundir verða á tveggja vikna fresti þar sem við förum í gegnum það sem á undan er gengið.
Vigtun og mæling. Það er valkvætt. Það er í boði, en margir vilja ekki nýta sér slíkt. Það er ekki gott að vera þræll vigtarinnar, skapsveiflurnar sem við verðum fyrir ef vigtin sýnir ekki það sem við viljum, er ekki ákjósanleg uppákoma, en ég skal með glöðu geði vigta fyrir og eftir ef það eru einhverjar sem það kjósa :)
Ég verð dugleg að dreifa til ykkar uppskriftum af hollum réttum sem þið getið prófað. Við verðum duglegar að kíkja á tölvupóstinn og senda fyrirspurnir og segja hvernig gengur. Ég er til dæmis nánast alltaf við tölvuna.
Fiskur þarf að vera oftar á borðum okkar :) Kjúklingur :) Ávextir og grænmeti :) Gróft korn, hnetur og fræ :) Ég er samt ekki að tala um að við séum að fara á eitthvað annað fæði en fjölskyldan er á best væri ef fjölskyldan tæki þátt og vildi prófa nýjar uppskriftir með okkur. Þessi matur er hollur fyrir alla :)
Við ætlum að takast á við matinn, læra að umgangast hann og hemja skammtastærðirnar.
Er ekki svolítið spennandi bara að fara jákvæðar, ákveðnar og sameinaðar inn í sumarið? Með rétta hugarfarið og rétta andann að vopni?
Við erum allar einstakar rósir, við erum allar perlur og við erum í hópnum á okkar eigin forsendum :)
Námskeiðið er frá 3. maí til 30. júní og kostar 19.900. Innifalið er leikfimi 3x í viku, reglulegir fundir á tveggja vikna fresti, vigtun og mæling fyrir þær sem vilja, hvatning, ráðgjöf, stuðningur, fróðleikur, gögn, uppskriftir o.fl. o.fl. Að auki er öll aðstaða í Mecca Spa, heitur pottur, gufubað, sundlaug, tækjasalur og fleira.
Er ekki málið bara - HEILSUÁTAK RÓSANNA ?
Lúv,
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2010 | 12:31
Minn eigin valkostur
Í dag er apríl hálfnaður. Allt á suðupunkti á Íslandi. Landið spýr eldi og brennisteini og pólitíkusar og útrásarvíkingar pota og pikka hver í annan yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Enginn viðurkennir neitt né biðst fyrirgefningar af einlægni. Þó hafa þeir tækifæri til þess núna. Það er þeirra valkostur að gera það ekki.
En hvað með okkur hin? Hverjir eru okkar valkostir í lífinu? Hverjir voru og eru mínir valkostir?
Ég er að verða 39 ára. Fyrir 4 árum hóf ég ferðalag mitt í átt til lausnar frá átröskun og þunglyndi. Frá því ég man eftir mér hef ég verið meira og minna þunglynd og döpur. Ég var orðin mjög virk í átröskun um 18 ára aldur. Svelti mig í tíma og ótíma og hakkaði í mig þess á milli. Óánægð með sjálfa mig. Vildi vera önnur en ég er og reyndi ýmislegt til þess. Um tvítugt fór ég svo að kasta upp og svelta mig þess á milli. Alltaf í átaki. Aldrei ánægð með mig.
Það hefur gengið upp og niður í mínu lífi, alltaf. Ótrúlegustu hlutir hafa komið fyrir. Been there, done that!" Þegar ég lít til baka finnst mér eins og sagan mín sé frekar kvikmynd eða bók sem ég hef lesið og man eftir. Mynd eða bók sem höfðu djúpstæð áhrif á mig. Í dag, þegar ég er í virkilega góðum bata hugsa ég um fortíð mína með hálfgerðum trega. Mikið ofboðslega var ég hræðilega veik. Í eitt ár sótti ég fundi hjá OA samtökunum. Þar blasti við á hverjum fundi setningin: Eymd er valkostur". Þúsund sinnum hefur þessi setning ómað í höfðinu á mér. En hvað er eiginlega átt við með þessum orðum?
Ég túlka þessi orð þannig að átt sé við að andlega eymd, hryggð. Að vanlíðan sé valkostur. Við berum ábyrgð á okkur sjálfum, okkar vellíðan, okkar hamingju. Hver er sinnar gæfu smiður!"
Þegar ég var sem veikust af átröskun var minn valkostur í rauninni eymd. Ég vildi vera í vanlíðan. Kunni það langbest af öllu. Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur!" Ég skil ekki nákvæmlega hvað þetta þýðir - en ég held að þegar maður er andlega kvalinn, eins og ég hef eytt stærstum hluta minnar ævi í að vera, þá leitar maður frekar í vanlíðan en vellíðan. Það er það sem maður kann. Ég kunni upp á hár að líða illa. Vissi nákvæmlega hvað ég þurfti að gera til að líða betur - ég bara gerði það ekki. Mér fannst ég svo innilega ekki eiga það skilið að líða vel. Ég óskaði sjálfri mér alls ills. Ég hafði ekkert álit á sjálfri mér, sjálfsmatið var í rúst, sjálfstraustið var ekkert. Ég faldi mig ofan í stóru, svörtu, djúpu holunni" minni í algjörri einangrun minna eigin döpru hugsana og tilfinninga. Mikið ofsalega langaði mig samt upp úr holunni, ég vissi bara ekki hvað beið mín fyrir utan. Þekkti ekki þá tilfinningu að líða vel. Raunverulega líða vel. Vera örugg. Treysta.
Auðvitað voru ekki allar stundir mínar slæmar. Skárra væri það nú. Auðvitað var oft gaman, ég leyfði því bara ekki að endast. Ávítaði sjálfa mig endalaust í huganum. Það voru engin takmörk fyrir því hvað ég gat niðurlægt, skammað, pínt og kvalið sjálfa mig. Út af gjörsamlega öllu. Allt var mér að kenna. Þvílíkur drami. Hugsa sér að ég hafi haft örlög svo margs í höndum mér - allt var mér að kenna! Þvílík rangtúlkun. Ég var alltaf að reyna og reyna og reyna að ná áttum. Reyna að vera eitthvað merkileg. Reyna að vera fullkomin. Mátti ekki gera mistök. Enginn mátti vita af minni átröskun. Og enginn vissi. Ég reyndi að ganga í augun á fólki, vera eins og ég hélt að aðrir vildu að ég væri. Fór langt, langt út fyrir allt sem gat verið ég. Fjarlægðist sjálfa mig og allt sem snéri að sjálfri mér. Á endanum þekkti ég ekki sjálfa mig. Vissi ekki hvar ég var, hvert ég ætlaði að fara eða hvaðan ég kom. Ég æfði yfir mig í ræktinni og var þar öllum stundum. Vann og vann, tók að mér öll verkefni sem mér voru rétt - ég gat ekki sagt nei. Þekkti ekki mín eigin mörk. Fannst að ég hlyti að verða að gera öllum til hæfis þótt ég sjálf sæti algjörlega á hakanum í staðinn. Ég var endalaust að. Hræddist höfnun meira en allt. Alltaf á fullu. Vinna, skóli, ræktin, svelti, ofát, uppköst, grátur. Reyna að þóknast. Reyna að vera almennileg. Hræðileg stanslaus og endalaus vanlíðan.
Mér verður hugsað til allra kvöldanna og allra helganna, jólanna og sumarfríanna þar sem ég lá heima hjá mér, úrvinda eftir sýndarmennsku" dagsins. Álagið við að fela raunverulega vanlíðan mína var gríðarlegt. Slökkti öll ljós og dró fyrir alla glugga. Sat og starði út í myrkrið og grét og niðurlægði sjálfa mig til skiptis. Fór ekki neitt. Talaði ekki við neinn - ekki nema ég þyrfti. Enginn mátti vita hvað var í gangi.
Aumingja börnin mín. Ég reyndi eins og ég gat að vera þeim góð móðir. Reyndi að veita þeim eins mikla ást og ég gat. Við vorum reyndar mjög flott team" ég og börnin. Miklir vinir. Enda alltaf saman. Við erum ennþá mjög flott team". Blessuð börnin mín. Þau eru óendanlega mögnuð. Takamarkalaus er ást mín á þeim og þessar elskur stóðu alltaf með mömmu sinni. Ég lifði fyrir þau. Fyrir þau þurfti ég að vakna á morgnana og fara út úr húsi. Fyrir þau þurfti ég að vinna svo ég gæti gefið þeim að borða og veitt þeim föt og skjól og allt hitt sem börn þurfa.
Ég var 34 ára gömul þegar ég fór af einhverri alvöru að gera eitthvað í mínum málum. Þá var ég flutt til Reykjavíkur, komin í Háskóla og einhvernveginn átti allt að vera svo gott. Það bara var það ekki. Á árunum 2004 og 2005 náði ég botninum. Ég var í algjöru rugli. Átröskunin tók allan tíma sem ég átti. Ég gat ekkert gert. Ég var þræll átröskunar og eigin vanlíðunar. Fangi þráhyggjunnar. Ég var í fíkn. Held að það sé hægt að útskýra þetta best þannig. Ég vissi ekki hvað snéri upp eða niður í sambandi við sjálfa mig. Var alltaf að fá einhverjar svaka hugmyndir um að mér liði nú betur ef ég gerði þetta og ef ég gerði hitt og ef mér fór að líða aðeins betur þá gerði ég eitthvað til að góða líðanin tæki enda. Ég átti ekkert gott skilið.
Á OA fundum árið 2004 fann ég á endanum nokkur svör. Ég fann þetta dæmalausa stjórnleysi, endalausu sjálfselsku, hvernig ég vildi að aðrir væru gagnvart mér. Ég fann gremjuna, óttann, hömluleysið, meðvirknina. Þarna var fólk sem deildi nákvæmlega sömu tilfinningum og ég. Þeim leið eins og mér. Þótt ég væri tugum kílóa léttari en sumir þá fann ég mig í þeirra frásögnum. Átröskun er geðsjúkdómur. Föst í höfðinu á manni. Líðanin hefur ekkert með kílóafjölda að gera. 10 kílóum léttari, 20 kílóum þyngri. Mér leið alltaf illa og vildi alltaf verða grönn. Ég fór í gegnum 12 sporin hjá OA og það var rosaleg vinna. Ég skrifaði og skrifaði tilfinningar ævi minnar. Í heildina voru listarnir mínir sem ég vann í sporavinnunni um 150 blaðsíður alls. En þrátt fyrir þetta náðu augu mín ekki að ljúkast upp fyrir alvöru. Á endanum datt ég í sama farið aftur - ennþá lengra niður.
Í febrúar 2005 var ég greind með flogaveiki eftir að hafa legið milli heims og helju á Borgarspítalanum. Búin að fara 4 sinnum á tveim mánuðum með sjúkrabíl vegna flogakasta. Ég var ennþá í bullandi átröskun þarna. En viðurkenndi það ekki samt. Gat ekki viðurkennt það. Ég skammaðist mín niður fyrir öll velsæmismörk. Það eina sem komst að hjá mér var að ég vildi verða mjó. Ég hélt að öll mín vandamál myndu leysast bara við það eitt að verða mjó. Allir myndu taka mig í sátt og öllum myndi líka við mig. Ég var farin að ganga ansi hreint langt í þessari viðleitni minni að verða mjó. Þarna á þessum tímapunkti hrundi líf mitt alveg á botninn. Ég varð að hætta í skólanum, mátti ekki keyra í heilt ár og var þjökuð af aukaverkunum lyfjanna sem ég þurfti að taka til að halda flogunum niðri. Á örskömmum tíma fór líðan mín niður í dýpstu svörtu holu sem ég hef kynnst. Átröskunin var gjörsamlega á milljón. Ég þyngdist töluvert af öllum nýju lyfjunum og tilfinningin var algjörlega að bera mig ofurliði. Mig langaði ekki að taka lyfin, en mig langaði heldur ekki að fá flogakast. Ég átti raunverulega ekki mikið eftir. Veit ekki einu sinni á hverju ég keyrði. Ég hélt þó alltaf áfram - einhvernveginn liðu dagarnir. Ég er viss um að ég væri ekki hérna megin móðunnar miklu ef ég hefði ekki haft börnin mín hjá mér. Elsku börnin mín. Þau fengu hrikalegt áfall þegar ég veiktist svona. Flogaveiki. Þau hafa ekki náð sér ennþá. Mamman þeirra, sem alltaf hafði verið þeirra stoð og stytta, vinur og félagi, hraust og sterk, var nú orðin hálfgert grænmeti. Ég gafst upp. Vildi bara að þetta tæki enda. Varð eiginlega nákvæmlega sama um allt - nema börnin mín. Ég vildi ekki kveðja heiminn þeirra vegna. Tilhugsunin um börnin mín hélt í mér lífinu. Hvað yrðu um þau ef mín nyti ekki við?
Og, öll él birtir upp um síðir. Ég fékk tíma hjá geðlækni og fór loksins fyrir alvöru að gera eitthvað í mínu andlega svartnætti. Ég gekk daglega með skrifblokk á mér og var dugleg að skrifa niður það sem ég sá, hugsaði og heyrði. Bæði neikvætt og jákvætt. Hugsanir mínar fóru á blaðið. Gerði alls konar tilfinningalista. Ég ætlaði að fá bata. Mig langaði í líf með börnunum. Fór suma daga hring eftir hring með strætó bara til að geta skrifað. Eftir 11 mánuði á endurhæfingu heima var ákveðið að framlengja endurhæfingartímabilið svo ég gæti nú tekið á öllu sem ég átti til að ná bata og læra að lifa með flogaveikinni. Í 8 mánuði í viðbót, samtals 19 mánuði var ég í endurhæfingu. Og ég nýtti mér svo sannarlega þetta tímabil.
Ég gerði margar breytingar til batnaðar á þessu tímabili til að gera líf mitt og barnanna viðráðanlegt og gott. Félagsþjónustan í Reykjavík veitti mér ómetanlega hjálp. Læknarnir mínir líka. Ég var svo ákveðin í að fara í bata. Ég flutti með börnin og bjó okkur heimili á nýjum stað í Reykjavík. Það var dásamlegt. Í byrjun febrúar 2006 vaknaði ég einn morgun og eitthvað var breytt. Það var eitt ár liðið frá því að ég fékk síðast flogakast. Ég mátti á næstu dögum fara að keyra bílinn minn aftur. Ég fylltist bjartsýni. Í fyrsta sinn á ævinni fann ég hvað mig langaði í bata. Ég mundi eftir orðum heimilislæknis míns fyrir austan þegar ég fór eitt sinn til hans, alveg að niðurlotum komin. Þá sagði hann: Besti vinur þunglyndis og depurðar er hreyfingarleysi!"
Auðvitað vissi ég að ég þyrfti að hreyfa mig. Ég var bara hrædd við það, vildi ekki lenda aftur í viðstöðulausa vítahringnum sem ég var í áður. Ég hafði ekki hreyft mig í 3 ár. Ég fór á fætur og fann að ég þyrfti að finna mér einhverja hreyfingu. Eftir smástund dreif ég mig í Baðhúsið til að fara í Pilates. Í 4 mánuði samfleytt fór ég í hádeginu á hverjum einasta virkum degi í Baðhúsið til að hreyfa mig. Það var æðislegt að vera þar. Bara konur og þetta gerði mér ákaflega gott. Ég fór að vinna með matinn, borða reglulega og ákveða fyrirfram hvað ég ætlaði að borða og hversu mikið. Ákvað það helst daginn áður. Borðaði ekki mat sem ég vissi að væri ofáts" matur. Borðaði á fyrirframákveðnum tímum. Oft varð ég að stilla símann minn á hringingu til að minna mig á að borða reglulega. Þetta var góður tími. En þetta var erfitt. Þegar fór að líða að vori fann ég að ég var komin í þörf fyrir að fara að gera eitthvað annað en að vera heima. Ég sótti um vinnu sem ég svo fékk og byrjaði á vinnumarkaðnum aftur eftir 19 mánuði í endurhæfingu.
Vinnan já. Mér líkaði vel framan af. Á endanum fann ég samt að ég var ekki nærri nógu sterk til að takast á við það andrúmsloft sem ríkti á vinnustaðnum. Mér fór að hraka aftur andlega. Á endanum var svo komið að ég stóð varla undir sjálfri mér. Ég fékk veikindavottorð og hætti í vinnunni. Við tók endurhæfing og enn eina ferðina var ég komin í uppbyggingu. En það var öðruvísi í þetta sinn. Ég var miklu sterkari en áður. Komin rosalega langt í bata þrátt fyrir allt. Það var birta í kringum mig og mér fannst ég ekki aumingi fyrir að hafa hætt í vinnunni. Ég fann bara fyrir létti og löngun til að verða heil.
Nú er liðið ár. Ég dreif mig í Háskólanám og mér gengur vel. Ég þarf þó stundum að hafa fyrir lífinu. Þarf að hafa fyrir því að gera suma hluti. Þarf að læra að setja mér mörk - draga línurnar. Ég hef ekki mikla einbeitingu og finn að ég er ekki eins skörp og ég var. Líklega eru lyfin eitthvað að vesenast þar. En ég er á góðri braut. Ég leiðbeini dásamlegum hópi kvenna í leikfimi og reyni að passa mataræðið. Þessi hópur er að gera kraftaverk fyrir mig.
Átröskunin er samt aldrei langt undan. Hugsanir í þráhyggju og hömluleysi koma oft upp í hugann. Ég hef náð upp þyngd í vetur, sem er gott. En það að þyngjast kallar á gömul viðbrögð. Ég reyni eins og ég get að berjast á móti. Gömlu tilfinningarnar um stóru, svörtu, djúpu holuna" mína sækja stundum á mig. Þá langar mig ekki að vera góð við sjálfa mig. Þá dett ég í svartnætti. En það stendur aldrei lengi. Munurinn á því núna og áður er sá að ég hef lært að einangra mikið til ósjálfráðu neikvæðu hugsanirnar sem endalaust herja á mig og set jákvæðar í staðinn.
Lífið mitt er dásamlegt í dag og ég er ekki að grínast þegar ég segi að það er til líf eftir átröskun.
Meira að segja gott líf :)
Með friði og kærleika
Berglind
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2010 | 15:41
Hvernig höndlum við hamingjuna?
Stundum heyri ég fólk, sérstaklega konur tala um að þessi eða hinn eða þetta eða hitt geri þær ekki hamingjusamar. Þangað til aðeins fyrir örfáum árum trúði ég því að hamingja mín væri undir öðrum eða öðru komin. Mikið væri lífið ósanngjarnt ef við bærum ábyrgð á hamingju annarra.
Lífið okkar er alltaf fullt af hindrunum. Það koma upp ýmis mál sem við vitum ekki hvernig við eigum að snúa okkur út úr. Við upplifum þessi mál oft eins og nú sé lífi okkar hreinlega lokið. Sama má segja um suma daga þar sem verkefni hlaðast upp. Við sjáum ekki út úr augunum fyrir verkefnum. Lífi okkar er lokið. En er það svo?
Nei, auðvitað ekki. Ekkert tímabil í lífi okkar er gallalaust og hindrunarlaus. Því síður fyrirhafnarlaust. Við þurfum að hafa fyrir þessu. Því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir því, þeim mun betra verður líf okkar. Við þurfum að taka ákvörðun um að velja hamingju, að velja það að hafa hamingjuna í okkar lífi. Lífið er fullt af lausnum. Við öllum uppákomum eru til lausnir. Líttu í kringum þig og sjáðu lausnina. Ó, hve líf okkar yrði mikið einfaldara ef við hugsuðum meira í lausnum!
Við erum alltaf að bíða. Við getum ekki orðið hamingjusamar núna af því að við erum í skóla og verðum að klára það helst á núll-einni, með tíu í öllu! Kannski erum við að bíða eftir því að geta farið aftur í nám. Þurfum að klára að safna pening, borga upp þetta lán, gera þetta, gera hitt - og þá get ég farið í nám. Á meðan er lífið í bið. Og við lufsumst áfram.
Hættum að bíða. Förum að gera :) Hættum að bíða eftir því að við eignumst börn. Hættum að bíða eftir því að börnin verði stór og fari að heiman. Hugsið ykkur allan tímann sem við eyðum í að bíða eftir öllum sköpuðum hlutum.
Mjög þekkt í samfélaginu á Íslandi er biðin eftir að losna við helvítis aukakílóin" (afsakið orðbragðið). Það er bara hreinlega eins og við konur getum ekki verið hamingjusamar nema við losnum við síðustu 3 kílóin, síðustu 10, 20, 25 kílóin, eða meira. Svo jafnvel þegar við erum búnar að losna við 25 kíló þá erum við samt ennþá í biðstöðu vegna þess að við erum ekki enn lausar við síðustu 2-3 kílóin. Hundóánægðar með okkur jafnvel. Djöfullinn (aftur afsakið) af hverju get "ég" ekki orðið 55 kíló. "Ég" hangi alltaf í þessum ömurlegu 58 kg! Þessi ofdýrkun á kílóatölu er svoleiðis gjörsamlega að fara með okkur konur.
Auðvitað er ekki hollt að burðast með of mörg aukakíló. Það veit hvert mannsbarn. Það getur beinlínis verið lífshættulegt. En þótt kílóin séu mörg er alveg hægt að vera hamingjusamur. Það er hægt! Það er líka hægt að vera hamingjusamur á meðan verið er að vinna í því að fækka kílóunum. Lífið þarf ekki að vera í bið á meðan. Það er líka hægt að vera hamingjusamur þótt við séum 10 kílóum þyngri en við vildum vera. Þetta snýst um viðhorf og skynsemi.
Hættu að bíða sífellt eftir tilefni til að verða hamingjusöm, hættu að drepa tímann því tíminn er þitt eigið líf. Lifðu lífinu lifandi. Njóttu augnabliksins. Þú átt bara þetta eina líf.
Mundu að núna er stundin til að vera hamingjusöm! Veldu þér þína hamingju!
Með ást og hamingju,
Berglind
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Elísa Berglind Sigurjónsdóttir
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Ágúst 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Maí 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
Tenglar
Mínir tenglar
- Mecca Spa
- Frábært blogg í baráttu við átröskun
- Stúdíó Sóleyjar
- Yoga með Maggý Dásamlegt yoga, Meðgöngu og mömmu yoga.
- Fit - Pilates á Íslandi Frábært æfingaprógramm
- Ragga Nagli Frábær síða full af fróðleik og góðum pistlum
- Umfjöllun um Átröskun hjá Sölva
- Overeaters Anonymous
- Greysheet Anonymous
- Hug-mynd, Hugur/líkami/sál
- Cafe Sigrún
- Góð heilsuræktarhugleiðing
- Hvað er í matnum
- Upplýsingasíða um fæðuofnæmi
- Heimilis uppskriftir
- Heilsubankinn
- MFM Miðstöðin
- Geðhjálp
- Kærleiksvefur Júlla
- Átaksblogg
- Elín Helga Egilsdóttir
Spurt er
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar